spot_img
HomeFréttirTaugar KR sterkari í Ljónagryfjunni (Umfjöllun)

Taugar KR sterkari í Ljónagryfjunni (Umfjöllun)

 
KR vann í kvöld mikilvægan sigur á Njarðvík í Iceland Express deild kvenna. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir leiddi meistarana til sigurs og því eru nú þrjú lið jöfn í með 8 stig í 3.-5. sæti deildarinnar en það eru KR, Njarðvík og Haukar.
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir byrjaði vel í liði KR og gerði 8 stig í fyrsta leikhluta. Sama má segja um Ólöfu Helgu Pálsdóttur í liði Njarðvíkinga sem gerði einnig 8 stig. KR-ingar voru aðeins beittari og leiddu því 17-20 að loknum fyrstu tíu mínútunum þar sem vakti athygli að hin unga og efnilega Árnína Lena Rúnarsdóttir lét leikstjórnandann leikreynda, Hildi Sigurðardóttur, hafa vel fyrir hlutunum.
 
Snemma í öðrum leikhluta sleit KR sig frá og komst í 18-26, Njarðvíkingar tóku leikhlé fyrir vikið og náðu eftir það að minnka muninn í 24-26. Guðrún Gróa tók þá aðra rispu fyrir KR en hún hélt meisturunum við efnið í fyrri hálfleik með 16 stig.
 
Njarðvíkingar fóru aðeins í svæðisvörn í öðrum leikhluta sem lak eins og gatasigti og KR seig fram úr með sterkum varnarleik þar sem Njarðvík komst ekki upp að körfu KR löngum stundum. Þá var KR með frákastabaráttuna í sínum höndum, 26 gegn 15 frá Njarðvík fyrstu 20 mínúturnar.
 
Staðan í hálfleik var 28-40 KR í vil þar sem Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var með 16 stig og 7 fráköst í liði KR en hjá Njarðvík var Ólöf Helga Pálsdóttir með 14 stig og 2 fráköst.
 
Dita Liepkalne opnaði síðari hálfleikinn með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga og staðan 31-40, Dita á eftir að láta mun betur að sér kveða í leikhluta sem var iðjagrænn. Með góðri baráttu og andleysi í KR liðinu sem var ekki svipur hjá sjón miðað við annan leikhluta tókst Njarðvík að jafna í 46-46 þegar Field skoraði í KR teignum.
 
Fyrstu sex mínútur leikhlutans fóru 18-6 fyrir Njarðvík sem vann leikhlutann 26-13 og leiddu 54-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Þegar rétt rúm mínúta var liðin af fjórða leikhluta fær Ólöf Helga Pálsdóttir sína fimmtu villu og það klaufalega, áfall fyrir Njarðvíkinga og Sverrir Þór þjálfari grænna ekki sáttur með jafn ódýra villu og raun bar vitni. Í kjölfarið virkuðu næstu Njarðvíkursóknir hikstandi og KR komst í 56-63. Ekki skömmu síðar urðu meistararnir einnig fyrir skakkaföllum þegar Margrét Kara Sturludóttir fékk sína fimmtu villu og sex mínútur eftir af leiknum.
 
Á lokasprettinum komust Njarðvíkingar ofan í hálsmálið á KR, grænar minnkuðu muninn í 68-71 þegar Hafrún Hálfdánardóttir skoraði fjögur stig í röð fyrir KR og kom meisturunum í 70-75 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Njarðvíkingar töpuðu boltanum strax í næstu sókn og þar með var leikurinn úti, síðustu sekúndurnar fóru í ágæta tilraun Njarðvíkinga til að komast nærri en reynsla KR og skynsemi vó þungt og meistararnir höfðu betur 77-84.
 
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir leiddi KR til sigurs í kvöld með 24 stig og 10 fráköst, Helga Einarsdóttir lék einnig vel með 17 stig og Hildur Sigurðardóttir gerði 16. Hjá Njarðvík var Sheila Fields með 28 stig og 11 fráköst og Dita Liepkalne var með 16 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar. Ólöf Helga Pálsdóttir gerði 14 stig og Árnína Rúnarsdóttir skoraði 7 stig og vakti verðskuldaða athygli með varnarleik sínum gegn Hildi Sigurðardóttur.
 
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir gerði 24 stig í kvöld og hún var ekki síðri á varnarsviðinu.
 
Fréttir
- Auglýsing -