spot_img
HomeFréttirFriðrik hetja Tindastóls í Garðabæ (Umfjöllun)

Friðrik hetja Tindastóls í Garðabæ (Umfjöllun)

 
Friðrik Hreinsson færði Tindastól sín fyrstu stig í Iceland Express deild karla þetta tímabilið með sigurkörfu gegn Stjörnunni í Ásgarði. Allt stefndi í sigur Stjörnunnar en baráttuglaðir gestirnir létu ekki deigan síga og nældu í sín fyrstu stig. Stjörnumenn hafa nú tapað tveimur heimaleikjum í röð, í bikarnum og nú í deild. Sean Cunningham var með 19 stig og 8 stoðsendingar í liði Tindastóls í kvöld en hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 23 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.
Stólarnir byrjuðu mun betur þar sem Dragoljub Kitanovic lét vel fyrir sér finna á fyrstu mínútunum. Gestirnir byrjuðu 2-8 áður en heimamenn rönkuðu við sér í vörninni og þá komu hraðaupphlaupin. Eftir tvo góða Stjörnuþrista í röð voru heimamenn komnir í 15-10. Hayward Fain nýr leikmaður Stólanna sýndi fínar rispur í upphafsleikhlutanum en heimamenn leiddu 25-20 eftir fyrstu tíu mínúturnar.
 
Í öðrum leikhluta náðu gestirnir að þvinga heimamenn í nokkur mistök en náðu ekki að nýta sér góða vörn á sóknarendanum sökum dræmrar skotnýtingar. Í örstutta stund náðu Stólarnir forystunni í 30-32 eftir þrist frá Sean Cunningham. Justin Shouse tók þá til sinna ráða og leiddi Stjörnuna inn í hálfleikinn 46-42.
 
Fannar Helgason fékk sína fjórðu villu hjá Stjörnunni í upphafi þriðja leikhluta og nokkur hiti færðist í leikinn. Friðrik Hreinsson tók flotta rispu fyrir gestina undir lok þriðja leikhluta og með sjö stigum frá Friðriki leiddu Stólarnir 64-66 fyrir fjórða leikhluta.
 
Marvin Valdimarsson gerði körfu og fékk villu að auki hjá Stjörnunni í upphafi fjórða leikhluta og gestirnir misstu Kitanovic af velli með 5 villur skömmu síðar sem teigur þeirra mátti síst við. Fannar Helgason nýtti fjarveru Kitanovic vel með nokkrum fráköstum og stigum. Í stöðunni 81-72 Stjörnunni í vil tóku Stólarnir leikhlé og rúmar þrjár mínútur til leiksloka. Eitthvað hefur Borce sagt rétt við sína menn sem komu grimmir í lokasprettinn.
 
Tindastóll tók 2-12 áhlaup á Stjörnuna og þegar 25 sekúndur voru til leiksloka fékk Friðrik Hreinsson dæma á sig óíþróttamannslega villu fyrir brot á Marvin Valdimarssyni. Marvin hitti aðeins úr öðru vítinu og Stjarnan tók innkast. Sean Cunningham braut á Justin Shouse sem setti niður bæði vítin og staðan orðin 88-86 Stjörnunni í vil. Stólarnir reyndu að jafna fljótt en brenndu af skotinu en Hreinn Gunnar Birgisson náði sóknarfrákastinu, fann Friðrik Hreinsson með 3,2 sekúndur til leiksloka og Friðrik splæsti í stoðsendingu fyrir Hrein með því að negla niður sigurþristinum og staðan 88-89. Stjarnan tók leikhlé og setti upp fléttu þar sem Marvin fékk boltann en hann rann til um leið og hann sótti á körfu gestanna og missti boltann af velli og fyrsti sigur Tindastóls því í höfn á þessu tímabili.
 
Heildarskor:
 
Stjarnan: Justin Shouse 23/4 fráköst, Jovan Zdravevski 18/8 fráköst, Fannar Freyr Helgason 16/8 fráköst, Guðjón Lárusson 10/4 varin skot, Marvin Valdimarsson 8/6 fráköst, Ólafur Aron Ingvason 5, Daníel G. Guðmundsson 5, Kjartan Atli Kjartansson 2, Birgir Björn Pétursson 1, Birkir Guðlaugsson 0, Dagur Kár Jónsson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0.
 
Tindastóll: Sean Kingsley Cunningham 19/8 stoðsendingar, Friðrik Hreinsson 17, Dragoljub Kitanovic 15, Hayward Fain 14/6 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 10/5 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 9, Hreinn Gunnar Birgisson 5/4 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 0, Halldór Halldórsson 0, Einar Bjarni Einarsson 0, Þorbergur Ólafsson 0, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 0.
 
Umfjöllun og ljósmynd: Tomasz Kolodzijeski – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -