Þann 10. desember n.k. verða boðnar upp fyrstu reglur körfuknattleiksins! Reglurnar sem skrifaðar voru af sjálfum James A. Naismith fara vafalítið ekki ódýrt en Naismith fann upp íþróttina árið 1891 í Bandaríkjunum. Það fé sem fæst fyrir reglubókina sem boðin verður upp mun á endanum renna til góðgerðarmála en Naismith fjölskyldan heldur úti International Naismith Basketball Foundation eða á hinu ástkæra ylhýra: Alþjóðlegi Naismith körfuboltasjóðurinn.
Skjalið sjálft sem um ræðir er aðeins tvær blaðsíður og eru reglurnar þrettán talsins. Naismith var á sínum tíma beðinn af skólayfirvöldum í YMC Training School (í dag Springfield College) að finna upp nýja innanhúsíþrótt. Basket Ball varð niðurstaðan úr pælingum Naismith og reglurnar 13 skrifaði hann niður og sumar hverjar eiga enn við daginn í dag en leikurinn sjálfur var töluvert frábrugðinn því sem við þekkjum nú.
Hægt er lesa ítarlegt viðtal við Ian Naismith eitt barnabarna James Naismith á heimasíðu FIBA þar sem hann tjáir sig um reglurnar og uppboðið á þessu merkasta plaggi körfuboltans en sjálfur segist Ian m.a. hafa hafnað um 10 milljón dollara boði í reglurnar!



