spot_img
HomeFréttirChargers byrja vel: Stutt í endurkomu Árna

Chargers byrja vel: Stutt í endurkomu Árna

 
Árni Ragnarsson er meiddur og hefur því ekki getað leikið fyrstu leikina með háskólaliði sínu Huntsville Chargers í Bandaríkjunum þetta tímabilið. Árni tognaði í nára á æfingu með Chargers þegar hann var nýbúinn að ná sér góðum af ökklameiðslum sem hann hlaut undir lok síðasta tímabils. Karfan.is náði í Árna úti í Bandaríkjunum sem bíður mikil áskorun við að komast að í sterku liði Chargers en hann var ,,redshirt” á síðustu leiktíð sem þýðir að hann æfði með liðinu en lék ekki með því. Erfiðisvinna í sumar skilaði honum miklu og vonast Árni til að sú reynsla hjálpi Chargers í vetur. 
,,Ég lenti semsagt í leiðinlegum ökklameiðslum undir lok síðasta tímabils, mætti svo heim í sumar þar sem ég náði að vinna mig úr þeim og komast rétt í gang. Ég fór svo til Birmingham undir lok síðasta sumars í heilan mánuð þar sem ég æfði með allskonar hörku atvinnumönnum. Þar fór ég á morgnana að æfa á einstaklingsæfingum með Joe Smith sem hefur spilað í topp deild Ítalíu síðustu árin. En á æfingunum er hann bæði að æfa sig sjálfur á sama tíma og hann þjálfar yngri bræður sína, Jason sem spilar í Portúgal og Jamie sem spilar með mér í UAH. Hann er mikill kennari og hjá honum lærði ég mikið,” sagði Árni sem var einnig á æfingum hjá sérhæfðum styrktarþjálfara.
 
,,Auk þess spiluðum við pick-up bolta, stundum á daginn og nánast öll kvöld og þá gegn öðrum atvinnu- og háskólaleikmönnum. Þetta var besti tími sem ég hef átt í körfubolta, ekkert smá gaman og ég var kominn í hrikalegt form þegar ég mætti svo aftur til æfinga hjá UAH,” og þar lét okkar maður til sín taka.
 
,,Undirbúningstímabilið með UAH gekk þess vegna hrikalega vel hjá mér allt þangað til ég var á æfingu eitt kvöldið og tognaði mjög illa á nára þegar það voru rúmlega 3 vikur í fyrsta leikinn. Vissulega mjög svekkjandi þar sem ég var orðinn mjög spenntur að sjá hvar ég næði að koma mér fyrir í liðinu þegar leikirnir myndu byrja,” sagði Árni en áætlað er að hann geti byrjað að æfa á fullum styrk næstu 2-3 vikurnar en hann hefur verið frá nú í um það bil tvo mánuði.
 
,,Liðið hefur verið að spila þvílíkt vel. Erum 3-0 og höfum nú þegar sigrað lið sem var rankað #5 en sjálfir verðum við líklega rankaðir topp10 eftir vikuna. Það eru 4 seniors (leikmenn á elsta ári) í liðinu í minni stöðu (2-3) sem hafa verið að spila vel þannig það verður alvöru áskorun þegar ég kem úr þessum meiðslum til þess að hjálpa liðinu,” sagði Árni sem fær mikinn stuðning í meiðslum sínum.
 
,,Annars er ég virkilega heppin að hafa lent á svona stað eins og ég er á hérna. Þjálfarar liðsins, liðsfélagar og stuðningsmenn hafa sýnt mér mikinn stuðning í gegnum þessi meiðsli en það munar öllu.”
 
Sé tekið mið af því að Árni verði farinn að æfa af fullum krafti núna í desemberbyrjun þá missir hann af fjórum leikjum nú í nóvember en í desember leikur liðið fimm leiki svo það gæti verið að kappinn færi í búning stuttu fyrir jól.
 
Ljósmynd/ Árni er nr. 1 í efri röðinni næstlengst til hægri.
 
Fréttir
- Auglýsing -