spot_img
HomeFréttirMeistararnir númeri of stórir fyrir Hauka

Meistararnir númeri of stórir fyrir Hauka

Meistarar Snæfells gerðu góða ferð á Ásvelli í kvöld þegar þeir öttu kappi við heimamenn í Haukum. Haukar hafa oft sýnt betri leik en Snæfellingar voru einu númeri of stórir. Sean Burton var óstöðvandi fyrir gestina og áttu Haukar fá svör gegn leik hans.
Snæfell byrjaði betur og skoraði fyrstu 7 stig leiksins áður en Haukar komust á blað. Liðin skiptust á körfum í næstu sóknum og Haukar unnu á. Það þurfti í raun ekki mikið til fyrir lið Snæfells, sem var betri aðilinn allan leikinn, til að rífa muninn upp áður en leikhlutanum lauk. Staðan var 20-30 eftir leikhlutann.
 
Snæfellingar áttu mikið af auðveldum körfum í leiknum og voru þeir yfirleitt komnir tveir til þrír einir undir körfu Hauka þegar heimamenn rönkuðu við sér eftir sóknir sínar. Máltækið segir að brennt barn forðist eldinn en svo átti ekki við um lið Hauka sem áttaði sig aldrei á því að leikmenn Snæfells væru einir frami fyrr en of seint. Meistararnir héldu áfram að auka muninn og leiddu í hálfleik með 16 stigum 45-61.
 
Haukar byrjuðu af krafti í seinni hálfleik en sá kraftur dugði ekki lengi og áfram juku gestirnir muninn. Emil Jóhannsson fór snemma í þriðja leikhluta af velli með fimm villur en það kom ekki af sök. Aðrir leikmenn Snæfells tóku við hans hlutverki og til að gera langa sögu stutta héldu Snæfellingar 20 stiga muni alveg fram á síðustu mínútu. Haukar klóruðu örlítið í bakkann í lokinn og minnkuðu muninn úr 22 stiga mun í 16 og þannig munaði á liðunum í leiks lok, 89-105.
 
Sean Burton var öflugur fyrir gestina og skoraði 30 stig, þar af 8 þriggja stiga körfur. Næstur honum var Ryan Amaroso með 25 stig og 16 fráköst og Pálmi Freyr Sigurgeirsson gerði 21.
 
Semaj Inge var stigahæstur Hauka en hann hefur oft sýnt betri leik en hann gerði í kvöld. Semaj skoraði 19 stig, gaf 7 stoðsendingar og stal 5 boltum. Gerald Robinson var með 18 stig og 11 fráköst og Sævar Ingi Haraldsson 15 og 7 stoðsendingar.
 
Mynd: Sean Burton var óstöðvandi á Ásvöllum í kvöld
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -