spot_img
HomeFréttirFSu flottir á beinu brautinni (Umfjöllun)

FSu flottir á beinu brautinni (Umfjöllun)

 
Framhaldsskólapiltarnir í körfuknattleikliði FSu koma mörgum skemmtilega á óvart. Þeir bættu fimmta sigrinum í safnið af sex leikjum í vetur þegar þeir sigruðu Skallagrím á sannfærandi hátt 87-70 í Iðu á föstudagskvöldið og verma nú annað sæti 1. deildarinnar á eftir Þór í Þorlákshöfn. Nú hafa þeir lagt að velli þrjú öflug lið, Breiðablik, Þór Akureyri og Skallagrím og bendir ekkert til annars en að þeir blandi sér í toppbaráttu deildarinnar. 
Skallagrímur hóf leikinn af meiri krafti og skoraði þrjár fyrstu körfurnar. Lágt stigaskor einkenndi fyrsta fjórðunginn, mistök á báða bóga, varnir beggja liða þéttar og þriggja stiga hittnin slök. Eftir að Borgfirðingar komust í 10-3 unnu FSu-arar sig hægt og örugglega inn í leikinn. Þeir misstu aldrei sjónar á Borgfirðingunum sem héldu forystunni fram undir miðjan leikhlutann en þá urðu fyrri straumhvörf leiksins þegar FSu breytti stöðunni úr 19-26 í 28-26. Það var þriggja stiga karfa Svavars Stefánssonar sem þar gerði gæfumuninn.
 
Í hálfleik var staðan 40-34 fyrir skólapiltana og ekkert sem benti til annars en að FSu yrðu „flottir á beinu brautinni“. Í blábyrjun seinni hálfleiks náðu Borgfirðingar að bíta frá sér og minnka muninn í eitt stig. Leikurinn var jafn og spennandi fram undir miðjan fjórða leikhluta en í stöðunni 64-63 urðu seinni straumhvörf leiksins þegar Sæmundur Valdimarsson skoraði 66 stigið og nokkrum sekúndum seinna setti Valur Valsson niður glæsilega þriggja stiga körfu og staðan breyttist á augabragði í í 69-63. Þá var eins og Skallagrímur tapaði viljanum og sunnlensku skólapiltarnir gerðu út um leikinn á lokakaflanum og juku muninn úr 6 stiga forystu í 15 stiga sigur.
 
Richard Field og Valur Valsson fóru fremstir hjá FSu í sóknarleiknum og skoruðu samtals 49 stig. Guðmundur Auðunn Gunnarsson er hreyfanlegur og kraftmikill leikmaður sem skoraði 11 stig og Orri Jónsson kom þar á eftir með 8 stig. „Stóru strákarnir“ Svavar, Arnþór og Sæmundur komust vel frá leiknum og náðu allir að skora og Garðar Hannesson vann vel í vörninni.
 
Borgfirðingar geta sjálfum sér kennt um ósigurinn. Þeir náðu aldrei að komast inn í leikinn af einhverju viti og festust í því hlutskipti að elta forystu FSu. Segja má að þeir hafi hangið inni í leiknum með öflugri þriggja stiga hittni í þriðja leikhluta. Undir lok leiksins voru þeir búnir á því. Skallagrímur er með hreyfanlega og hittna framherja en Darell Flake vantar greinilega öflugri samherja undir körfunni. Stigahæstir þeirra voru Darell Flake með 19 stig, Halldór Gunnar Jónsson 18 stig og Hafþór Ingi Gunnarsson með 16 stig.
 
FSu er sérlega athyglisvert körfuboltafélag. Það er að langstærstu leyti skipað kornungum leikmönnum sem jafnframt því að leika körfubolta stunda nám við körfuboltaakademíu Fjölbrautaskólans. Það er aðdáunarvert að sjá hvernig Valur Ingimundarson heldur utan um þessa ungu og efnilegu leikmenn. Með reynslu sinni sem leikmaður og þjálfari virðist hann hafa alla þræði leiksins í hendi sér á hliðarlínunni. Hann heldur strákunum á tánum og þó þeir stigi einstök hliðarspor ná þeir að koma til baka og spila sinn leik á kerfisbundin hátt.
 
Umfjöllun: Jón Özur Snorrason
 
Ljósmynd/ Úr safni
Fréttir
- Auglýsing -