Leikurinn í Hveragerði byrjaði ekki gæfulega í kvöld þegar Davíð T. Tómasson, dómari, læsti flautuna sína inni í búningsherbergi og nokkur töf varð á leiknum á meðan leitað var að lyklum til að opna. En loks var honum klappað lof í lófa þegar hann birtist á leikgólfinu með flautuna í munnvikinu. Hamarsmenn tóku á móti Grindvíkingum í IcelandExpress deild karla í kvöld. Grindavík átti möguleika á því, með sigri, að jafna stigaskor Snæfells sem situr á toppnum og það leit allt út fyrir að sú yrði raunin.
Það voru andlausir heimamenn sem mættu til leiks í byrjun. Reyndar áttu bæði lið erfitt með að hitta í körfuna í upphafi, en það tók Hamarsmenn mun lengri tíma að komast í gang heldur en Grindvíkinga. Eftir 1. leikhlutann var staðan 8-18 fyrir Grindavík og ljóst var að heimamenn þyrftu að bæta sig töluvert ef þeir ættu ekki að fá fastan skell.
Sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta en staðan að honum loknum var 25-42 fyrir gestina. Undirritaður talar fyrir hönd heimamanna þegar hann segir að bjartsýnin var ekki mikil.
Þriggja stiga nýting heimanna var afleit, eða 1/11 á meðan að gestirnir höfðu sett 6 þrista í 18 tilraunum. Jeremy Kelly leiddi stigaskor gestanna með 14 stig en hjá Hamri var það Andre Dabney með 10 stig og 6 fráköst.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, hefur greinilega náð að peppa strákana sína upp í hálfleik því að ótrúlegur 3. leikhluti heimamanna gaf tóninn fyrir því sem koma skildi. Hamarsmenn tóku sig til og gerðu 35 stig á móti 16 stigum gestanna og breyttu stöðunni úr, eins og fyrr segir, 25-42 í 60-58 fyrir lokafjórðunginn. Mikill hamagangur var í leikhlutanum og létu Grindvíkingar dómgæsluna fara í taugarnar á sér og uppskáru fyrir vikið 3 tæknivillur.
Fjórði leikhlutinn var ótrúlegur. Liðin skiptu skorinu nokkuð jafnt á milli og skiptust reglulega á forystunni. Grindavík virtust þó vera með þetta nokkuð í höndum á sér og náðu að halda Hamri 4-7 stigum frá sér á nokkurra mínútna kafla í senn. Í nokkur skipti voru það þriggja stiga körfur Hamars sem komu þeim aftur í baráttu og tvisvar átti Nerijus opin skot sem hann hefði getað sett og komið Hamri í nokkuð þægilega stöðu, en það gerðist ekki.
Í stöðunni 75-76 fyrir Grindavík fær Darri Hilmarsson, Hamar, víti en þegar hann hefur klúðrað báðum vítunum flautar Davíð dómari og biður hann um að taka seinna vítið aftur þar sem Grindvíkingar höfðu farið of fljótt inn í teiginn, við lítinn fögnuð gestanna. Hann setur vítið og leikurinn í járnum, 76-76.
Grindvíkingar halda í sókn þegar 22 sekúndur eftir liðu en þegar boltinn barst til Guðlaugs Eyjólfssonar, steig hann útaf og missti þar af leiðandi boltann. Ágúst Björgvinsson tekur leikhlé og Hamarsmenn eiga innkast á miðju. Andre Dabney brýst aleinn í gegnum vörnina og setur sniðskotið og aðeins 1 sekúnda eftir þegar Grindvíkingar taka leikhlé. Páll Axel átti svo seinasta skot leiksins, þriggja stiga skot sem fór í hringinn, en geigaði. Lokastaða, 78-76 eftir frábæra skemmtun í Hveragerði.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, hafði þetta að segja eftir leikinn:
,,Þetta leit alls ekki vel út í hálfleik en ég er mjög ánægður með karakterinn í strákunum að koma svona til baka. Það vantaði alla samheldni í fyrrihálfleik en það lagaðist heldur betur. Ég er sáttur með dómara leiksins, þá Einar og Davíð, en þeir dæmdu nánast óaðfinnalega í fyrrihálfleik. Vissulega voru 2 eða 3 dómar í seinnihálfleik sem féllu með okkur en þannig er það bara og það var alls ekki það sem skilaði okkur þessum sigri. Grindvíkingarnir létu dómgæsluna fara í taugarnar á sér. Við erum að brjóta á bak aftur allar spár sem voru gefnar út fyrir leiktíðina. Við misstum marga leikmenn í sumar en þessir leikmenn sem við höfum eru virkilega að standa sig og ég er mjög sáttur með þá.”
Ljósmynd/ Sævar Logi Ólafsson: Hamarsmenn höfðu ríka ástæðu til að fagna í leikslok.
Pistill: Jakob Hansen



