Snæfell gerði góða ferð í Ljónagryfjuna í kvöld og skellti Njarðvíkingum 60-82 í Iceland Express deild kvenna. Með sigrinum eru Hólmarar komnir með sex stig í deildinni en eru samt áfram í 6. sæti, 2 stigum á eftir bikarmeisturum Hauka.
Þá komust Fjölnismenn örugglega áfram í 16 liða úrslitin í Poweradebikarkeppni karla í kvöld með 48-88 sigri á Val b. Fjölnir mætir ÍR svo í 16 liða úrslitum bikarsins. Feðgarnir Tómas Holton og Tómas Heiðar Tómasson mættust á parketinu í Vodafonehöllinni í kvöld þar sem sá eldri setti tvö stig yfir erfingjann og var hinn kátasti með það. Bráðlega verður hægt að sjá svipmyndir frá leiknum sem og viðtal við þá feðga hjá Andra Kristins og félögum á Leikbrot.is
Ljósmynd/ Jón Björn – Tómas eldri ,,brennir” hér afsprengi sitt, sá yngri ætlaði að hnupla tuðrunni af þeim gamla en reynslan vó þyngra og setti sekúndu síðar tvö stig í góðu teigskoti.



