Formaðurinn verður þjálfari, fjarri því algeng sjón en sú er nú raunin hjá nýliðum KFÍ í Iceland Express deild karla eftir að stjórn deildarinnar ákvað að segja upp samningi sínum við B.J. Aldridge. Úr var að Shiran Þórisson formaður KKD KFÍ tók við þjálfun liðsins með Guðjón Þorstinsson sem aðstoðarmann. Karfan.is náði á Shiran sem sjálfur man ekki eftir mörgum hliðstæðum dæmum að formenn taki við þjálfun liða. Shiran bíður nú ærinn starfi en KFÍ hefur tapað fimm deildarleikjum í röð og sjóðheitir Keflvíkingar eru næstir á dagskrá hjá nýliðunum.
KFÍ sagði BJ upp, voru fimm deildartöp meira en forsvarsmenn félagsins vildu sætta sig við?
Fimm deildartöp var hluti af ástæðunni en það voru aðrir þættir sem skiptu líka máli en það verður trúnaðarmál milli stjórnar og þjálfara.
Formaðurinn tekur við liðinu, nokkuð óvenjulegt ekki satt?
Það er óvenjulegt að formaðurinn taki við þjálfuninni og ég man ekki eftir mörgum hliðstæðum dæmum þess. Undir kringumstæðunum þá voru ekki margir valkostir í stöðunni en það hafði verið rætt við nokkra aðila um verkefnið sem hefðu ekki geta komið með svo skömmum fyrirvara. Þar sem allt þetta bar brátt að þá var þessum möguleika velt upp sem svo varð raunin, hvað sem svo verður í framtíðinni.
Hvernig leggst verkefnið í þig, er þetta ekki í fyrsta sinn sem þú þjálfar í úrvalsdeild?
Þetta er í fyrsta sinn sem ég þjálfa í úrvalsdeildinni og ég er mjög spenntur fyrir verkefninu. Leikmannahópurinn er góður og eru þeir hungraðir í velgengni. Sú niðursveifla sem liðið hefur verið í gerir starfið enn meira krefjandi, en tiltrú mín á leikmönnum er það sterk að ég tel að þeir geti sýnt sitt rétta andlit. Verkefnið snýst að hluta til um mannauðsstjórnun og mun ég reyna að nálgast verkefnið með það í huga.
Búinn að stýra þinni fyrstu æfingu, hvernig er hljóðið í leikmannahópnum eftir þessar breytingar?
Neita því ekki að ég var spenntur fyrir fyrstu æfingunni og ekki laus við smá fiðring í maganum. En þegar í salinn var komið þá var það fljótt að hverfa og leikmenn lögðu sig fram, voru ákafir og almennt með hugarfarið í lagi. Breytingarnar sem leikmenn upplifa verða aldrei auðveldar en í lok dags snýst þetta um körfubolta.
Keflavík í næsta leik, hvernig leggst leikurinn í þig?
Ætli það sé ekki Keflavíkurleikurinn sem valdi þessum fiðringi í maganum. Þeir eru búnir að vera á siglingu undanfarið og hafa marga hæfileikaríka menn innanborðs þ.m.t fyrrum leikmann KFÍ sem orðinn er lykilleikmaður hjá Keflavík. Þeir eru þó á leiðinni í Jakann að berjast við lið sem hefur í sjálfu sér engu að tapa. Miðað við hugarfar leikmannana þá á ég von á góðum leik, þannig að leikurinn leggst vel í mig.
Ljósmynd/ www.bb.is – Shiran Þórisson þjálfari KFÍ



