,,Það er vitað að liðið er í erfiðri stöðu og ég er ekki að fara að taka við því á þeim forsendum að gera stelpurnar að stórmeisturum fyrir jól,” sagði Bragi Hinrik Magnússon nýráðinn þjálfari Fjölnis í Iceland Express deild kvenna. Karfan.is náði í skottið á Braga sem er nýkominn heim úr námi á Englandi en síðast stýrði Bragi Stjörnunni í Iceland Express deild karla og tekur nú við Fjölniskonum á botni úrvalsdeildar.
,,Uppbyggingarstarf er fyrir höndum í Grafarvogi, ég kem inn í þetta til að gera mitt besta og er viss um að leikmennirnir geri það líka, svo sjáum við til hversu langt það nær og vonandi verður þetta eitthvað til að byggja á á komandi tímabilum,” sagði Bragi sem er með samning við Fjölni út þessa leiktíð og næstu tvær eftir það.
,,Ég er enginn sérfræðingur í kvennabolta eins og hann hefur verið spilaður hér, ég þekki samt vel til hans en það er mikið sem ég þarf að komast inn í svo það er lærdómur framundan hjá mér og stelpurnar þurfa að venjast mínum aðferðum,” sagði Bragi en þetta er ekki fyrsta kvennaliðið sem hann stjórnar því hann þjálfaði hér um árið kvennalið Skallagríms. ,,Af þeim sökum verð ég fljótur að koma mér inn í hlutina og það kemur bara í ljós hvernig þetta þróast á næstunni,” sagði Bragi sem fær eldskírn sína um helgina þegar Fjölnir leikur gegn toppliði Hamars í Hveragerði.
,,Það eru efnilegir leikmenn hjá okkur, tveir til þrír reynsluboltar og góður kani svo við erum ekki að fara í neina leiki í einhverju djóki, við gerum þetta af fullri alvöru.”




