Þórsarar unnu öruggan 102-51 sigur á Leikni í gærkvöld þegar liðin mættust í 7. umferð 1. deild karla í körfuknattleik. Eins og lokatölur gefa til kynna áttu gestirnir úr Breiðholtinu lítið í Þórsara sem hreinlega keyrðu yfir þá. Leiknismenn byrjuðu þó ágætlega og héldu í við heimamenn á upphafsmínútunum en síðan ekki söguna meir. Með góðum varnarleik náðu Þórsarar, hægt og bítandi að skilja sig frá gestunum og silgdu því öruggum 102-51 sigri í höfn.
Gestirnir byrjuðu þó leikinn nokkuð vel, hittnin var góð og náðu þar með að hanga í heimamönnum. Hins vegar þegar á leið fyrsta fjórðung, náðu heimamenn yfirhöndinni og leiddu leikinn með 12 stigum eftir fyrsta fjórðung. Vörn Þórsara small saman í öðrum leikhluta sem má segja að hafi lagt grunninn að sigrinum í kvöld. Gestirnir áttu í miklum vandræðum með vörn heimamanna, misstu knöttinn gjarnan klaufalega sem Þórsarar náðu að refsa gestunum fyrir með hraðaupphlaupum. Sem dæmi um góða vörn Þórs í öðrum leikhluta, má nefna að gestirnir skoruðu einungis níu stig í leikhlutanum og þar af komu sjö stig af vítalínunni. Áður en fyrri hálfleiknum lauk náðu heimamenn 29 stiga forystu og leiddu því leikinn 50-21 þegar liðin gengu til búningsklefa og leiknum óformlega lokið.
Leiknismenn byrjuðu síðari hálfleikinn ágætlega, skiptu yfir í svæðisvörn og með Hallgrím Tómasson í fararbroddi í sókninni náðu gestirnir litlum spretti. Heimamenn kipptu sér þó lítið við þennan sprett gestanna og héldu áfram á sömu braut. Þegar líða tók á seinni hálfleik, voru gestirnir komnir við sama heygarðshornið í sókninni, fundu fáar leiðir í gegn um vörn Þórs og misstu gjarnan knöttinn klaufalega frá sér. Að auki voru gestirnir ekki nógu duglegir að hlaupa til baka sem gerði sóknarvinnu heimamanna enn auðveldara fyrir. Heimamenn virtust skemmta sér konunglega, enda fengu allir leikmenn liðsins að spreyta sig og komust þeir allir að auki á blað. Þórsarar voru einfaldlega of stór biti fyrir gestina og sigldu því öruggum 102-51 sigri.
Það var við hæfi að Björgvin Jóhannesson skyldi skora hundraðasta stig leiksins fyrir Þór í kvöld en þetta var kveðjuleikur kappans sem flyst brátt búferlum á Selfoss og því þurfa norðanmenn að finna sér nýjan íslenskan Kevin McHale.
Heildarskor:
Þór Ak.: Wesley Hsu 19/7 fráköst, Konrad Tota 18/6 fráköst, Ólafur Torfason 14/13 fráköst, Óðinn Ásgeirsson 11/3 varin skot, Benedikt Eggert Pálsson 10, Sigmundur Óli Eiríksson 8, Baldur Már Stefánsson 5, Sindri Davíðsson 5, Stefán Karel Torfason 4, Björgvin Jóhannesson 3/5 fráköst, Bjarni Konráð Árnason 3, Bjarki Ármann Oddsson 2.
Leiknir R.: Hallgrímur Tómasson 13/10 fráköst, Darrell Lewis 7, Egill Örn Egilsson 6, Einar Þór Einarsson 6/4 fráköst, Einar Hansberg Árnason 5, Þórður Björn Ágústsson 4/4 fráköst, Snorri Fannar Guðlaugsson 3, Helgi Davíð Ingason 3, Eiríkur Örn Guðmundsson 2, Kristinn Magnússon 2, Hilmir Hjalmarsson 0, Daði Steinn Sigurðsson 0.
Dómarar: Halldór Geir Jensson, Ágúst Jensson




