Horsens, lið Sigurðar Einarssonar, vann sinn sjötta sigur í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar þeir heimsóttu Aabyhoj. Lokatölur leiks voru 73-81 Horsens í vil. Axel Kárason og félagar í Værløse sigruðu SISU örugglega á heimavelli 93-74.
Sigurður sem er fyrirliði liðsins var með þrjú stig. Hann setti eitt af tveimur þriggja-stiga skotum sínum og geigaði á einu teigskoti.
Leikur Værløse og SISU var jafn til að byrja með og í hálfleik leiddu heimamenn með 7 stigum en í þriðja leikhluta stungu þeir af og skorðu gestirnir aðeins 6 stig gegn 25 og þar með var björninn unninn.
Axel skoraði 5 stig á um 19 mínútum en að auki tók hann 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Bonnell Colas var stigahæstur með 31 stig. Atkvæðamestur gestanna var Thomas Soltau fyrrum leikmaður Keflavíkur en hann skoraði 27 stig og tók 17 fráköst.
Með sigrinum lyfti Værløse sér upp um eitt sæti, eru komnir í það áttunda eftir að hafa unnið 4 af síðustu 6 leikjum. Eftir komu Bandaríkjamannsins Bonnell Colas og Danans Julian McFarlene er liðið á mikilli siglingu.
Mynd: Henrik Bo – Sigurður og félagar unnu í kvöld




