Í gærkvöldi tóku Laugvetningar á móti Ármenningum í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins. Laugdælir unnu 102-82 og eru því komnir í 8-liða úrslitin. Leikurinn var í fyrstu dálítið spennandi og liðin skiptust á körfum. Fljótlega fóru þó heimamenn að skríða fram úr og það var lítið sem gestirnir í Ármann gátu gert. Staðan eftir fyrsta fjórðung: 25-17.
Laugdælir voru ekki að spila sinn besta leik og voru mjög mikið upp og niður í sókninni. Þeir spiluðu hins vegar góða vörn í seinni hluta annars fjórðungs og skoruðu á einum kafla 16 stig á móti 3 hjá Ármanni. Þegar liðin gengu inn í búningsklefana í hálfleik var staðan 55-38, Laugdælum í vil.
Laugdælir komu heldur andlausir inn í seinni hálfleikinn og leyfðu nokkrar auðveldar körfur hjá Ármenningum í byrjun. Þá hristu þeir slenið af sér og fóru aftur að spila góða vörn og fá auðveldar körfur úr töpuðum boltum hjá andstæðingunum. Laugdælir spiluðu líka miklu
betur saman en Ármann (27 stoðsendingar hjá Laugdælum á móti 14 hjá Ármanni) og gekk boltinn vel á milli heimamanna á köflum. Eftir góðan þriðja fjórðung var staðan 82-53, Laugvetningum í vil.
Fjórði leikhlutinn var ekki sérlega spennandi þar sem að munurinn var nú þegar orðinn svo mikill. Ármenningur klóruðu þó aðeins í bakkann og náðu nokkrum góðum rimmum en þá tóku Laugdælir aðeins við sér og settu nokkra þrista í boði Antons Kára og Péturs Más. Heimamenn slökuðu fullmikið á í lokin (skoruðu 3 stig á síðustu 5 mínútum leiksins) en það kom ekki að sök og lokastaðan því 102-82.
Margir leikmenn Laugdæla áttu mjög gott kvöld í gær. Anton Kárason var atkvæðamestur í stigaskori hjá Laugdælum með 24 stig (50% nýting í þristum og 70% í tveggjum) en rétt á hælum hans kom Sigurður Orri Hafþórsson með 21 stig og aðeins eitt skot sem fór ekki niður (7/7 í tveggjum, 2/3 í þristum og 1/1 í vítaskotum). Bjarni Bjarnason gældi við fyrstu þreföldu tvennuna sína í vetur með 16 stigum, 10 stoðsendingum og 9 fráköstum og Jón Hrafn Baldvinsson var heldur ekki langt frá henni með 15 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.
Laugdælir eru því á leið í 8-liða úrslit Powerade bikarsins ásamt Haukum, Grindavík, Fjölni og Skallagrím en síðustu 3 leikir 16-liða úrslitanna verða á sunnudaginn 5.desember.
Laugdælir: Anton Kárason 24, Sigurður Orri Hafþórsson 21, Bjarni Bjarnason 16/10 stoðsendingar/9 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 15/9 fráköst/7 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Pétur Már Sigurðsson 11, Arnór Yngvi Hermundarson 7, Haukur Már Ólafsson 6, Helgi Hrafn
Ólafsson 2.
Ármann: Steinar Aronsson 18, Halldór Haukur Sigurðsson 15/11 fráköst, Helgi Hrafn Þorláksson 9, Halldór Kristmannsson 8, Aron Kárason 7/7 fráköst, Hermann M Maggýarson 6, Kristinn Geir Pálsson 6, Egill Vignisson 5, Geir Þorvaldsson 3/5 fráköst, Oddur Jóhannsson 2, Eggert Sigurðsson 2, Árni Muggur Sigurðsson 1.
Ljósmynd/ Úr safni
Umfjöllun: Helgi Ólafsson




