Fjórir leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í kvöld. Solna Vikings, lið Loga Gunnarssonar, tapaði á heimavelli en Helgi Magnússon og félagar í Uppsala Basket náðu í tvö góð stig gegn Boras Basket.
Logi Gunnarsson var stigahæstur með 26 stig í heimatapi Solna en lokatölur leiksins voru 71-79 LF Basket í vil. Logi var einnig með 9 fráköst og 2 stolna bolta í leiknum. Logi er fjórði stigahæsti maður sænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir með 20,21 stig að meðaltali í leik.
Uppsala vann nauman 100-96 heimasigur gegn Boras Basket. Helgi Magnússon átti fínan leik í liði Uppsala með 12 stig og 4 fráköst en Helgi steig vart feilspor og setti niður bæði teigskotin sín, 2 af 3 þristum og bæði vítin sín í leiknum.




