Það voru andlausir Hvergerðingar sem tóku á móti meisturum meistaranna, Snæfelli, í Hveragerði í kvöld. Tvo menn vantaði í lið Hamars; þá Nerijus Taraskus, sem hefur snúið heim til Litháen í jólafrí og óvíst um hvort komi aftur, og Snorra Þorvaldsson, sem er puttabrotinn og verður frá í nokkrar vikur.
Snæfellingar spiluðu langt undir getu í 1. leikhluta og náðu Hamarsmenn að halda í við þá, en staðan að honum loknum var 16-18 fyrir Snæfell. Ragnar Nathanaelsson var sterkur í liði Hamars og var kominn með 3 varin skot.
Snæfellingar komu mjög sterkir til leiks í 2. leikhluta og skoruðu þeir 7 fyrstu stigin. Ryan Amaroso var allt í öllu hjá Snæfelli og staðan í hálfleik var 47-29 fyrir gestunum. Amaroso var kominn með 22 stig og 8 fráköst. Í liði Hamars var Andre Dabney kominn með 12 stig og 5 fráköst.
Snæfellingar gáfu ekkert eftir í 3. leikhluta og skoruðu 11 fyrstu stigin þar. Amaroso hélt uppteknum hætti og gerði 12 stig í leikhlutanum. Staðan að honum loknum 67-48.
Snæfellingar skoruðu 32 stig í lokaleikhlutanum á móti 27 frá Hamri og sigruðu að lokum örugglega, 99-75.
Atkvæðamestur í liði Snæfells var Ryan Amaroso sem gerði 38 stig, tók 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Jón Ólafur Jónsson gerði 16 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Emil Þór Jóhannsson var með 10 stig og 6 fráköst. Pálmi Freyr Sigurgeirsson gerði 8 stig en aðrir gerðu minna.
Hjá Hamri voru það Andre Dabney og Darri Hilmarsson sem gerðu 19 stig, Hilmar Guðjónsson gerði 11, Ellert Arnarson gerði 10 og Ragnar Nathanaelsson og Svavar Páll Pálsson gerðu 8 stig hvor.
Pistill: Jakob F. Hansen




