spot_img
HomeFréttirHandahófskennd Ármannsglíma FSu

Handahófskennd Ármannsglíma FSu

 Leikur FSu og Ármanns í 1. deild körfuboltans síðastliðið föstudagskvöld bauð hvorki upp á tilþrif né spennu. Svo virtist sem liðin legðu meira upp úr því að tapa boltanum og hitta ekki körfuna. Sóknir runnu út í sandinn og svo virtist sem handahófskenndur leikur réði mestu um gang mála og að leikskipulagið hefði verið skilið eftir í búningsklefanum. Á hinn bóginn var þessi Ármannsglíma skólapiltanna í Fjölbrautaskóla Suðurlands hin besta skemmtun fyrir þá fáu selfyssku áhorfendur sem nutu góðgerðanna. Vonandi fer þeim fjölgandi með hækkandi sól.
 
Byrjunin lofaði góðu fyrir FSu. Þeir skoruðu þrjár fyrstu körfurnar og virkuðu kappsamir og ákveðnir. Þar fóru fremstir Orri Jónsson og Richard Field. Bláklæddir og að sama skapi glímulegir Ármenningarnir voru hins vegar ekki komnir til Selfossbæjar í þeim eina tilgangi að láta skora hjá sér. Þeir flæktu sig með klofbrögðum inn í leik skólapiltanna sem höfðu þó völdin framan af en klúðruðu á endanum tíu stiga forskoti 24-14 niður í þrjú stig í lokin 24-21.
 
Ármenningar byrjuðu annan leikhlutann með stæl og náðu að jafna leikinn í 26-26 en lengra komust þeir ekki. Þriggja stiga karfa hins hávaxna Svavars Stefánssonar og einstaklingsframtak Vals Valssonar sáu til þess á þeim tímapunkti. Þegar staðan var orðin 36-28 fyrir FSu var ljóst í hvað stefndi. Það dró sundur og saman með liðunum en stigamunurinn fór aldrei niður fyrir 10 stig. Í hálfleik var staðan 49-35 fyrir FSu og mestur var hann í lok leiksins 104-77.
 
Þó Ármenningar héldu sig inn í leiknum fram í fjórða leikhluta voru þeir í raun aldrei nein fyrirstaða fyrir FSu. Í samanburði við hina ungu leikmenn FSu eru þeir margir komnir af léttasta skeiði. Þrátt fyrir það virka þeir brattir og baráttuglaðir og kunna að spila körfubolta. Halldór Kristmannsson hélt þeim lengst af inn í leiknum með samtals 27 stig þar af voru fimm þriggja stiga körfur. Þorsteinn Húnfjörð var flottur undir körfunni í baráttu við Richard Field og skoraði 13 stig. Fjölhæfasti leikmaður þeirra er án nokkurs vafa Steinar Aronsson sem átti flottar innkomur og skoraði 13 stig.
 
Það er ástæðulaust að vanmeta Ármenninga. Nafnið eitt og sér ætti að vera öðrum liðum næg viðvörum. Körfuboltaliði sem byggir á fornri frægð Birgis Arnar Birgis, Jóns Sigurðssonar, Jimmy Rogers og Símons Ólafssonar þarf alltaf að sýna tilhlýðilega virðingu. Þetta verða leikmenn FSu að hafa í huga því lærdómur, þroski og reynsla gerir oft gæfumuninn. Einstaklingsframtak og mistök settu mestan svip á leik skólapiltanna. Eðlilegt flæði leiksins skorti algerlega sem vannst fyrst og fremst með puðinu og því að Richard Field réði flestu undir körfunni og skoraði 38 stig. Valur Valsson var oft á tíðum bráður og skoraði 17 stig. Orri Jónsson var að vanda traustur og skoraði 13 stig eins og Guðmundur Auðunn. Sigurbjörn Jónsson átt i fína innkomu og skoraði 7 stig eins og Sæmundur Valdimarsson.
 
 
Jón Özur Snorrason.

Mynd: Richard Field var drjúgur fyrir FSu

Fréttir
- Auglýsing -