Miðherjinn Telma B. Fjalarsdóttir hefur verið fjarverandi í Haukaliðinu í síðustu leikjum og verður ekki með í síðustu umferðinni fyrir jól þegar Haukar mæta Njarðvík á morgun í Iceland Express deild kvenna. Telma ákvað að nýta tækifærið og demba sér í Pílagrímaflugið sem hún hafði afþakkað síðastliðin tvö ár sökum körfuboltans en hún hefur undanfarið starfað sem flugfreyja.
,,Ég ákvað að skella mér í smá ævintýri eftir langa umhugsun. Ég er búin að segja pass við þessu í tvö ár útaf körfunni en þar sem ég hef verið að glíma við þrálát ökklameiðsli og ekkert að ná mér af þeim taldi ég það ágætt að því leitinu að breyta til,” sagði Telma við Karfan.is sem kemur heim um jólin og ætlar þá að skoða framhaldið.
,,Ég býst fastlega við að koma sterk inn eftir áramótin,” sagði Telma sem hafði leikið sex deildarleiki með Haukum áður en hún hélt erlendis í Pílagrímaflugið og þá var hún með 3,2 stig 6,0 fráköst að meðaltali í leik.




