Karfan.is ræddi við Brynjar Þór Björnsson, KR, og Pálma Frey Sigurgeirsson, Snæfell, eftir viðureign liðanna í Stykkishólmi í kvöld. Pálmi fór á kostum í sigurliði Snæfells í kvöld og Brynjar var að vitanlega ekki sáttur með lokasprett þeirra KR-inga.
Brynjar þór var að vonum ekki sáttur eftir tapið og sagði um síðustu mínútur leiksins:
,,Þetta var bara grín held ég, vörnin var að skilja Pálma eftir galopinn hvað eftir annað og hann bara drap okkur, hitti úr hverju einasta skoti, frekar svekkjandi. Ég var ánægður með tvo leikhluta en svo komu þeir með svæði og það var eins og við hefðum aldrei spilað á móti svæði áður, eitthvað í hausnum á okkur, veit ekki hvað þetta er,” sagði Brynjar Þór sem óskaði svo gleðilegrar hátíðar á leið sinni frá Stykkishólmi.
Pálmi Freyr “sankti kaiser” fyrirliði Snæfells var aftur á móti hress með sinn leik og sinna manna.
,,Við vorum 10 stigum undir (61-71) og breyttum í svæðisvörn þá fóru hlutirnir að gerast, við náðum vel saman þegar við fórum að þétta vörnina og það var það sem skóp þennan sigur og við vorum snöggir fram og fengum auðveldar körfur. Þeir eru svolítið hikandi á móti okkur og eru ekkert að fá boltann inn á móti svæðisvörninni okkar og taka skotin fyrir utan sem var lykillinn þar sem þeir voru ekki að hitta. Nú er mótið hálfnað og við í fyrsta sæti og við erum sáttir við það sem af er og svo er það deildameistaratitillinn og svo úrslitakeppnin sem er nýtt mót.”
Símon B. Hjaltalín




