spot_img
HomeFréttirÍR lagði Fjölni: Förum bjartsýnir inn í jólin

ÍR lagði Fjölni: Förum bjartsýnir inn í jólin

 
Þrátt fyrir frækinn sigur ÍR í kvöld á Fjölni í Iceland Express deild karla verða Breiðhyltingar samt í fallsæti yfir hátíðarnar. Lokatölur í Hellinum í kvöld voru 107-99 ÍR í vil sem kvittuðu þar heldur betur fyrir bikarósigurinn gegn Fjölni fyrir nokkrum dögum. Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR var sáttur með sína menn og kvaðst fara bjartsýnn inn í jólahátíðina.
,,Það sem mig dreymdi snemma í haust kom nú í kvöld, mig dreymdi að ÍR liðið nennti að spila vörn og þó Fjölnir hafi skorað 99 stig í leiknum þá gerðum við samt góða hluti enda hefur vörnin verið vandamálið okkar,” sagði Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR vígreifur eftir sigur sinna manna gegn Fjölni í hnífjöfnum leik í Hellinum í kvöld.
 
Í fyrri hálfleik voru heimamenn í ÍR ívið sterkari og leiddu 51-50 í leikhléi þar sem gestirnir slúttuðu fyrstu 20 mínútunum ágætlega með 9-4 áhlaupi. Ægir Þór Steinarsson kom með þrista sem bættu krafti í Fjölnisliðið rétt fyrir hálfleikinn.
 
Fjölnir byrjuðu sterkar eftir hléið og komust yfir en ÍR voru baráttumeiri og leyfðu Fjölnismönnum aldrei að keyra sinn leik í gang og héldu þeim með góðri vörn. ÍR missti reyndar Sovic snemma af velli með fimm villur en það kom ekki að sök, heimamenn voru komnir á bragðið og kláruðu dæmið 107-99.
 
,,Þetta var skemmtilegur leikur og hraður, Fjölnir er með skemmtilega unga stráka sem búið er að tala of mikið um að séu efnilegir. Kristinn Jónasson kom skemmtilega inn hjá okkur núna og Eiríkur líka en hann hefur bara þurft smá tíma eftir að hafa verið lengi frá, þá er Sveinbjörn Claessen að koma flottur inn núna,” sagði Gunnar bersýnilega ánægður með sína menn sem lönduðu stigunum tveimur með Sovic utan vallar með 5 villur.
 
,,Þetta var mikil sveifla frá bikarleiknum sem við lékum við þá en þeir eru eitursnöggir Fjölnismenn og við mættum þeim með 1-3-1 svæðisvörn sem gekk vel í kvöld og Níels stóð sig þar frábærlega aftast í vörninni,” sagði Gunnar og gat viðurkennt að nú myndi jólasteikin vafalítið bragðast betur en ella.
 
,,Jú jú, hún verður aðeins betri með þessum sigri, ekki spurning. Við þurfum samt að nýta jólin gríðarlega skynsamlega og megum ekki sofa bara og borða um hátíðarnar heldur vera á tánum. Það er gott að enda fyrri hlutann svona og förum því bjartsýnir inn í jólin.”
 
 
 
Umfjöllun og viðtal: Karl West Karlsson og Jón Björn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -