spot_img
HomeFréttirFain fór mikinn gegn Njarðvíkingum

Fain fór mikinn gegn Njarðvíkingum

 
Tindastóll og Njarðvík mættust í Síkinu í kvöld, bæði í neðri hluta deildarinnar, en bæði hafa sýnt framfarir í síðustu leikjum eftir slæma byrjun í deildinni. Það var því búist við hörku leik á Króknum og varð það reyndin. Liðin spiluðu fína vörn lengst af, en sóknarleikur heimamanna var öflugri auk þess sem gestirnir létu dómgæsluna fara í taugarnar á sér. Á endanum innbyrtu Stólarnir nokkuð öruggan sigur 78 – 65, eftir að Njarðvíkingar höfðu gert nokkrar atlögur án þess að ná að jafna leikinn.
Byrjunarlið Tindastóls var hefðbundið, Rikki, Kiki, Hayward, Helgi Rafn og Sean byrjuðu, en hinu megin voru það Friðrik, Guðmundur, Rúnar, Christopher og Jóhann Árni. Eins og áður segir voru varnir liðanna ágætar, en Stólarnir byrjuðu betur sóknarlega á meðan gestunum gekk erfiðlega að finna körfuna. Eftir rúmar sex mínútur var staðan 12 – 2. Hittnin lagaðist þá hjá Njarðvík og héldu þeir í við heimamenn út fyrsta leikhluta. Staðan að honum loknum var 19 – 10. Kiki og Helgi Rafn náðu sér í tvær villur hvor í leikhlutanum, en Rúnar Ingi gerði betur hjá Njarðvík og var komin með þrjár á fyrstu 5 mínútunum.
 
Varnirnar voru áfram í aðalhlutverki í öðrum fjórðungi. Njarðvíkingar minnkuðu muninn í upphafi hans í sex stig, en síðan náðu Stólarnir aftur tíu stiga forskoti og leiddu í hálfleik 33 – 24. Eins og sést á tölunum var enginn leiftrandi sóknarleikur í fyrri hálfleik. Guðmundur og Jóhann Árni voru atkvæðamestir gestana í fyrri hálfleik, en hjá heimamönnum var Helgi Rafn kominn með 9 stig og þar af einn þrist sem er næstum því jafn sjaldgæfur og hvítur hrafn.
 
Njarðvík skellti sér í svæðisvörn í byrjun síðari hálfleiks og áttu heimamenn í vandræðum með hana framanaf. Munurinn fór niður í þrjú stig um miðjan leikhlutan, 38 – 35. Stuttu síðar skullu Rikki og Rúnar Ingi saman, Rúnar fékk skurð sem blæddi nokkuð úr og varð hann að fara af velli og kom ekki meira við sögu. Rikki slapp hinsvegar betur og gat haldið áfram leik eftir smá aðhlynningu. Þegar hér var komið fór Hayward Fain að láta meira að sér kveða fyrir heimamenn. Hann stal boltanum í næstu sókn Njarðvíkur og átti ógurlega troðslu í kjölfarið. Síðan fylgdu átta stig frá honum í viðbót út leikhlutann. Eftir þennan sprett leiddi Tindastóll með tíu stigum fyrir síðasta leikhlutann, 52 – 42.
 
Ekki voru Njarðvíkingar búnir að gefast upp, þeir áttu 10 – 3 sprett í upphafi fjórða leikhluta sem lauk með þristi frá Magga Gunn. Staðan 55 – 52. Þá nældi Maggi sér í tæknivillu við litla ánægju þjálfara Njarðvíkur. Stólarnir skoruðu næstu þrjú stig, en tvo stig frá Smith og þristur frá Magnúsi minnkuðu muninn í eitt stig, 58 – 57 og fór um heimamenn. Þeir héldu þó ró sinni og hleyptu gestunum ekki framúr. Í stöðunni 64 – 60 fékk Jóhann Árni tæknivillu og næstu fjögur stig voru Tindastólsmanna. Staðan 68 – 60 og Friðrik Stefánsson kominn út af með 5 villur. Þrátt fyrir fimm stig í röð frá Smith var tíminn orðinn of naumur og Tindastóll kláraði leikinn á vítalínunni. Mótlætið fór illa í Njarðvíkinga og undir lokin fékk Magnús Gunnarsson síðan aðra tæknivillu og þar með útilokun frá leiknum. Að endingu vann Tindastóll 13 stiga sigur 78 – 65. Þeir leiddu frá fyrstu mínútu og má segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður, en Njarðvík veitti góða mótspyrnu mest allan leikinn, en voru reyndar sjálfir sér verstir á þeim kafla sem þeir höfðu tækifæri á að jafna.
 
Hayward Fain var öflugastur heimamanna með 26 stig og 15 fráköst, Rikki var næstur með 12 stig og þá átti Sean ágætis leik. Hjá Njarðvík var Christopher Smith stigahæstur með 17 stig og þá voru Guðmundur Jóns og Jóhann Árni áberandi.
 
Stigaskor Tindastóls: Fain 26, Rikki 12, Kiki 11, Helgi Rafn 9, Sean 6, Helgi Freyr og Svavar 5 hvor, Hreinn 3 og Ingvi 1.
 
Njarðvík: Smith 17, Guðmundur 13, Jóhann Árni 13, Magnús 8, Friðrik 7, Egill 4, Páll 2 og Rúnar 1.
 
Eftir leik hafði Helgi Rafn fyrirliði Tindastóls þetta um leikinn að segja:
“Þetta var góður sigur. Við verðum að halda heimavellinum og að halda Njarðvík í 65 stigum er mjög gott."
Hver var munurinn á liðunum í kvöld?
“Það var varnarleikurinn, við vorum að spila svakalega varnarleik. Og það að halda þeim í 65 stigum var grunnurinn að sigrinum."
Varnarleikurinn var sterkur eins og þú segir, en sóknin var í smá ströggli?
"Við lentum í vandræðum með svæðisvörn þeirra og misstum niður forskotið í eitt stig og maður var orðinn svolítið smeykur en það hafðist."
Hvernig lítur fyrri umferðin út, nú hafið þið verið á uppleið?
"Þetta byrjaði ekki vel og við skiptum út erlendu leikmönnunum, þrír fyrir tvö og eftir það hefur þetta smollið saman og þetta er bara á uppleið. Nú tökum við á því um jólin, förum inn í þau með sigurleik, komnir áfram í bikarnum og það verður bara haldið áfram núna, fullt rör áfram."
Er búið að setja markmið fyrir tímabilið?
"Það er náttúrulega úrslitakeppnin og svo verður bara að koma í ljós hvað við komumst langt þar og í hvaða sæti við lendum. Liðið á eftir að þróast og menn að bæta sig enn frekar bæði í vörn og sókn. Ég hlakka bara til að sjá hvernig þetta þróast."
 
Ljósmynd/ www.feykir.is Heimamenn fögnuðu vel góðum sigri á Njarðvík.
 
Texti: JS.
Fréttir
- Auglýsing -