Fjölnismenn hafa ákveðið að láta Bandaríkjamanninn Ben Stywall fara úr herbúðum liðsins en þetta staðfesti Örvar Kristjánsson þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is. Stywall kveður því Grafarvoginn með 18,5 stig og 10,0 fráköst að meðaltali í leik og Fjölnisliðið í 9. sæti deildarinnar með 4 sigra og 7 tapleiki.
,,Ben er frábær piltur og ágætur leikmaður en við teljum okkur þurfa öðruvísi ígildi. Ég og stjórn Fjölnis vorum mjög ánægð með hann að flestu leyti enda stundaði hann sitt af miklum krafti og stóð við allar sínar skuldbindingar, við þurfum einfaldlega öðruvísi leikmann,“ sagði Örvar við Karfan.is í dag.
Fjölnismenn munu fá sér annan Bandaríkjamann áður en átökin við síðari hluta deildarinnar hefjast og sagði Örvar að sú vinna stæði yfir í augnablikinu.




