spot_img
HomeFréttirGat ekki sleppt því að koma til Íslands

Gat ekki sleppt því að koma til Íslands

Nokkrir erlendir leikmenn hafa komð í gegnum tíðina til Íslands að spila körfubolta. Margir þeirra eru eftirminnilegir og einn þeirra sem kom árið 2000 er Predrag Óskar Bojovic. Hann er ef til vill mörgum kunnugur hér á landi og þá helst til Haukamönnum en Predrag, sem ávallt er kallaður Kuki, var hjá Haukum frá 2000-2005 en hann kom frá Serbíu til að þjálfa yngri flokka félagsins. Fljótlega tók hann við kvennaliði Hauka og má segja að hann hafi lagt grunn að velgengni liðsins seinna meir.
Margt hefur breyst frá því að Kuki hélt af landi brott en þeir leikmenn sem að nutu góðs af hans þjálfun skipa nú sess í þeim liðum sem þeir spila með í dag. Allt eru þetta leikmenn sem spilað hafa með Haukum því Hafnarfjarðarliðið var eina liðið sem hann starfaði hjá á þeim árum sem hann staldraði við. Hæst ber að nefna Helenu Sverrisdóttur sem og Sævar Inga Haraldsson en þau tvö náðu gífurlegum framförum á þeim árum sem að Kuki vann með þau. Þarna eru einnig leikmenn sem að spila með meistaraflokki karla hjá Haukum í dag eins og Örn Sigurðarson, Emil Barja og Haukur Óskarsson.
 
8. flokkur drengja veturinn 2003-04 hjá Haukum.
 
Eftir mikla leit fundum við Kuki í Slóvakíu þar sem hann starfar við að leita að leikmönnum fyrir umboðsskrifstofu sem hann kom sjálfur á laggirnar ásamt félaga sínum.
 
Ástæða þess að Kuki kom til Íslands að þjálfa var að þáverandi umboðsmaður hans benti honum á að það væri lið á Ísland sem hafði áhuga á að fá hann til vinnu og þar sem að hann hafði haft augastað á Íslandi ákvað hann að slá til.
 
„Umboðsmaðurinn minn sagði mér frá liði á Ísland sem væri að leita að þjálfara sem mögulega gæti spilað með meistaraflokki karla og ég greip tækifærið um leið. Ég kom fyrst í smá prufu og eftir hana þá var mér boðinn samningur. Launin voru ekki há en möguleikinn á að búa í landi eins og Íslandi og staðreyndin að ég gat aðstoðað við þróun körfuboltans hjá Haukum var nóg til að líta fram hjá laununum,“ segir Kuki og bætir við að vera hans hjá Haukum hafi verið afar skemmtileg.
 
„Ég verð að segja að mér líkaði afar vel veran hjá Haukum og sennilegast voru þetta skemmtilegustu ár lífs míns. Haukar verða alltaf minn klúbbur og ég fylgist enn með bæði karla og kvennaliðinu í fjölmiðlum.“
 
Kuki var falið það verkefni að þjálfa karlalið Hauka sumarið 2005 og því miður náði hann ekki þeim árangri sem hann hefði vonast eftir. Árangurinn var alls ekki góður en liðið vann aðeins einn leik fyrir áramót og sagði Kuki starfi sínu lausu um áramótin 2005. Kuki sem kominn var með íslenskan ríkisborgararétt ákvað að halda heim til Serbíu þrátt fyrir að vera með atvinnutilboð á Íslandi.
 
„Árangur liðsins var virkilega slakur og það er staðreynd. Mitt takmark var að búa til lið sem þyrfti ekki að treysta svo mikið á erlenda leikmenn og við vorum aðeins með einn erlendan leikmann á þessum tíma. Ég vildi að íslensku leikmennirnir fengju fleiri mínútur, meiri reynslu og að þeir myndu axla meiri ábyrgð því það er mín skoðun að án kjarna af íslenskum leikmönnum ná lið ekki góðum árangri. Þetta var ekki að virka hjá mér svo að ég ákvað að stíga úr brúnni.“
 
„Ég hafði möguleika á að þjálfa hjá öðru liði en Haukum eftir þessi fimm ára veru mína á Íslandi. En í sannleika sagt þá vildi ég ekki starfa hjá neinu öðru liði á Íslandi. Tryggð við klúbbinn eða almenn heimska? Ég veit það ekki en ég ákvað að fara heim eftir að ég hætti með karlaliðið.“
 
Kuki spilaði öll árin með meistaraflokki Hauka á þeim árum sem hann var hérna og lá þá beinast við að spyrja hann hver væri eftirminnilegasti leikurinn sem hann spilaði hér á landi.
 
„Uppáhalds leikurinn minn er klárlega þegar við spiluðum við Tindastól í úrslitakeppninni 2003. Ég skoraði þriggja stiga körfu af sjö og hálfsmeters færi á síðustu sekúndu leiksins og við unnum. Því miður þá unnu Stólarnir næstu tvo og við féllum úr leik.“
 
 
En eftirminnilegasti leikur sem þjálfari?
 
„Þeir eru nokkrir í raun. Einn af þessum leikjum var þegar ég þjálfaði minnibolta 11 ára gegn Njarðvík. Örn Sigurðarson tróð þá í leik í fyrsta skipti og það yfir leikmann Njarðvíkur. Mér er líka minnistætt þegar ég þjálfaði hóp af krökkum með Stefáni [Má Haraldssyni]. Við byrjuðum í C riðli og unnum hann örugglega, tókum B riðilinn einnig og enduðum í úrslitum það árið. Það er sennilegast uppáhalds flokkurinn minn.“
 
Kuki vann mikið og náið með Helenu Sverrisdóttur á þessum árum og var hún á einkaæfingum hjá honum tvisvar í viku í nokkur ár. Hann segir hana vera einn af skynsamari leikmönnum í kvennakörfunni sem hann nokkurn tíman hefur séð og telur að hún eigi eftir að ná virkilega langt.
 
„Það var frábært að vinna með Helenu. Ég er vel tengdur kvenna körfunni núna og verð að segja að hún er ein af skynsamari leikmunnum sem ég hef séð og ég er mjög ánægður að hafa fengið að vinna með henni og eiga sum part þátt í hennar velgengni. Ég hef fulla trú á því að hún eigi eftir að spila í WNBA deildinni og vonandi mun hún einnig eiga góðan feril í Evrópu.“
 
Eftir að Kuki yfirgaf Ísland bjó hann í Belgrad í tvö ár og hóf svo að ferðast víðsvegar um Evrópu. Hann bjó á mörgum stöðum í austur og mið Evrópu og býr núna í Kosice, Slóvakíu, þar sem að unnusta hans spilar með Euroleague liðinu Good Angels. Í ljósi þess að hann starfar við að leita að leikmönnum hefur hann tök á því að fylgjast með bestu og efnilegustu leikmönnum Evrópu.
 
„Ég starfa við að finna leikmenn fyrir umboðsskrifstofu sem ég kom á laggirnar ásamt félaga mínum og reyni að koma efnilegum kvenkyns leikmönnum fyrir hjá bestu félögunum í Evrópu. Þetta er erfitt og stressandi starf en ég kann vel við það. Þarna get ég líka nýtt þekkingu mína sem þjálfari yngriflokka vel þar sem að ég get fundið efnilega leikmenn á fyrri stigum ferils þeirra en aðrir umboðsmenn.“
 
„Ég þjálfa þó aðeins að gamni mínu á sumrin og þá með krökkum í Zemun, Serbíu, sem eru efnilegir en hafa ekki efni á því að borga fyrir einstaklings þjálfun,“ en Kuki er uppalinn í Zemun sem er eitt af fátækari hverfum Belgrad.
 
Predrag Óskar Bojovic vildi að lokum skila kveðju til allra hjá Haukum og óskar þeim velgengni í öllum flokkum.
 
„Ef ég get hjálpað þá geta Haukar alltaf leitað til mín. Áfram Haukar,“ sagði Kuki að lokum og þökkum við honum kærlega fyrir spjallið.
 
Myndir: Nr. 1: Kuki að þjálfa 10. flokk drengja hjá Haukum veturinn 2003-04. Nr. 2: Kuki á bekknum á fjölliðamóti hjá Haukum. Nr. 3: Kuki ásamt 8. flokki drengja veturinn 2003-04.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -