Í september á þessu ári greindum við frá því hér á Karfan.is að Ron Artest, hinn skrautlegi leikmaður LA Lakers, myndi bjóða upp meistarahringinn sinn, hringinn sem hann vann með Lakers eftir úrslitarimmuna gegn Boston. Nú er komið í ljós hver fær hringinn, sá heitir Raymond Mikkael og er fjögurra barna faðir.
Skömmu áður en Lakers létu Miami Heat rassskella sig á heimavelli tilkynnti Artest hver fengi hringinn. Ekki var gefið upp á hvað hringurinn fór en þetta verkefni leikmannsins miðar allt að því að vekja athygli á baráttunni fyrir bættri andlegri heilsu ungmenna í Bandaríkjunum. Hugmyndin að því að setja á fót styrktarsjóð til handa málefninu fékk Artest eftir tíma hjá sálfræðingi sínum sem hann kvað hafa hjálpað sér gríðarlega í úrslitakeppninni þegar Lakers urðu meistarar.
Barátta Artest í þessu máli hefur aflað styrktarsjóðnum ríflega hálfri milljón dollara og hyggst leikmaðurinn sjálfur gefa góða summu af 6,79 milljón dollara samning sínum við Lakers í sjóðinn. Þegar hefur hann sjálfur látið um 50.000 dollara rakna af hendi inn í málaflokkinn.
Við þetta tilefni fyrir leikinn gegn Miami sagði Artest einnig að hann vildi fá skattafslátt í jólagjöf frá Barack Obama Bandaríkjaforseta því Artest og fjölskylda lifðu ansi hátt… ,,Diamonds are a girls best friend” sagði Artest og því ljóst að ,,blingið” vantar ekki á þann bæinn.
Tengt efni:




