KR varð í dag fyrsta liðið til þess að vinna Hamar á yfirstandandi tímabili með glæstum 5 stiga bikarsigri í vesturbænum. Hamar leiddi leikinn framan af og höfðu yfir meirihluta leiks. KR var hins vegar aldrei langt undan og sigu framúr á lokamínútunum. Það voru því mikil fagnaðarlæti í DHL-höllinni þegar flautað var til leiksloka í dag. Stigahæst í liði KR var Margrét Kara Sturludóttir með glæsilega tvennu, 25 stig og 12 fráköst. Næstar á blað voru Chazny Morris með 20 stig og Hildur Sigurðardóttir með 7 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Hamar var Jaleesa Butler með ekki síðri tvennu, 23 stig, 12 frákost og 6 varin skot en næstar voru Kristrún Sigurjónsdóttir og Slavica Dimovska með 11 stig hvor.
Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur og skiptust liðin á að leiða leikinn. Hamarsstúlkur byrjuðu leikinn betur og höfðu fljótlega náð 5 stiga forskoti, 1-6. KR svaraði þó fyrir sig og hafði komist yfir 8-6 áður en leikhlutinn var hálfnaður. Hamar kom til baka og hafði yfir 10-15 þegar um það bil mínúta var eftir af leikhlutanum. Hamar hafði hélt því forskoti þangað til lokaflautan gall en um það leyti setti Margrét Kara Sturludóttir niður laglega flautukörfu og minnkaði muninn niður í 3 stig, 15-18. Jaleesa Butler fór á kostum í fyrsta leikhluta og hafði varið heil 3 skot áður en fyrsta leikhluta lauk ásamt því að skora 10 stig og hirða 5 fráköst.
Hamar byrjaði annan leikhluta af krafti og hafði náð 6 stiga forskoti aftur eftir um það bil tvær mínútur en þá tók Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, leikhlé, 18-24. KR komu sterkar til baka eftir það og þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður höfðu þær minnkað muninn aftur niður í eitt stig, 27-28. Ágúst Björgvinsson ákvað þá að taka leikhlé og lesa yfir sínu liði. Margrét Kara var sjóðandi heit fyrir utan þriggja stiga línuna í öðrum leikhluta og lét það ekkert stöðva sig þó hún tæki skotin góðum metra fyrir utan línuna. KR átti góðan kafla undir lok annars leikhluta og náði forskotinu í fyrsta skiptið síðan um miðjan fyrsta leikhluta, 32-29. Seinustu sekúndurnar í fyrrihálfleik voru spennuþrungnar en það voru mistök á báða bóga, hraður leikur og skemmtileg tilþrif. Þegar 4 sekúndur voru eftir áttu Hamarsstúlkur boltan undir körfunni en köstuðu boltanum útaf á hinum enda vallarins án þess að nokkur snerti boltan. KR fékk því innkastið og nýtti það fullkomnlega með þriggja stiga körfu frá Chazny Morris. KR leiddi því með 6 stigum inní hálfleik, 37-31.
Sitgahæst í liði KR í hálfleik var Chasny Morris með 16 stig en næstar voru Margrét Kara Sturludóttir með 15 stig og Hildur Sigurðardóttir með 3 stig. Hjá Hamar var Jaleesa Butler stigahæst með 11 stig og 7 fráköst með því. Næstar voru Íris Ásgeirsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir, allar með 5 stig.
Það var varnarleikurinn sem réði ríkjum í upphafi þriðja leihkluta en eftir tæplega fjórar mínútur hafði Hamar skorað 5 stig gegn 1 stigi heimaliðs og Hrafn Kristjánsson tók leikhlé. 38-36. Hamar hafði svo náð forskotinu stuttu sienna, 38-41. Ákafinn í svæðisvörn Hamars var slíkur að Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars var kominn í varnarstöðu á hliðarlínunni farinn að spila með. Það var svo ekki fyrr en eftir þrjár og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta að KR setti niður sitt fyrsta teigskot, 41-43. Margrét Kara kom svo KR yfir stuttu seinna með laglegu þriggja stiga skoti, 44-43. Hamar var þó ekki lengi að endurheimta forskotið og leiddu það sem eftir lifði þriðja leikhluta. Þegar flautað var til loka leikhlutans höfðu þær 4 stiga forskot, 46-50.
Það stefndi allt í æsispennandi lokamínútur því bæði lið voru að spila fínan varnarleik og var því lítið um fína sóknartilburði. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta höfðu Hamarsstúlkur 2 stiga forskot, 50-52 og hvert stig orðið gífurlega mikilvægt. Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra í fjórða leikhluta og tóku KR stúlkur við sér. Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður höfðu þær náð forskotinu aftur og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir gestina, 58-54. KR fór langleiðina að því að tryggja sér sigur í leiknum þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Þær tóku 2 sóknarfráköst og tóku sinn tíma í að finna rétta skotið. Það var svo Signý Hermannsdóttir sem setti niður laglegt skot og jók forskot heimaliðs í 6 stig, 60-54. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum tók Ágúst Björgvinsson leikhé en þá munaði 4 stigum á liðunum, 60-56, og Jaleesa Butler átti 2 skot af línunni. Butler setti bæði skotin niður og hálfri mínútu sienna tók Hrafn Kristjánsson leikhlé fyrir KR, 60-58.
Lokamínútan var æsispennandi en bæði lið hentu frá sér boltanum og spennustigið var hátt. Kristrún Sigurjónsdóttir fór útaf með 5 villur þegar ca. 40 sekúndur voru eftir og sendi Helgu Einardsóttur á línuna til þess að taka skotið með 2 stigunum. Jeleesa Butler var svo ekki lengi að setja boltan ofaní hinu megin og KR hélt aftur í sókn. Þær tóku sinn tíma, tóku sóknarfrákast og héldu boltanum þangað til 5 sekúndur voru eftir þegar brotið var á Chasny Morris og hún send á línuna. Hún setti bæði skotin ofaní og munaði því 5 sitgum á liðunum þegar Ágúst tók leikhlé fyrir Hamar og aðeins 5 sekúndur eftir, 65-60. Lokatilraun Hamars geigaði og KR varð því fyrsta liðið til þess að vinna Hamar á þessu tímabili.
Heildarskor:
KR: Margrét Kara Sturludóttir 25/12 fráköst, Chazny Paige Morris 20/5 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 7/9 fráköst/6 stoðsendingar, Signý Hermannsdóttir 5/6 fráköst, Helga Einarsdóttir 3/6 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 3/5 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 2/13 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 0, Svandís Anna Sigurðardóttir 0, Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir 0, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 0, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 0.
Hamar: Jaleesa Butler 23/12 fráköst/6 varin skot, Kristrún Sigurjónsdóttir 11/5 fráköst/5 stolnir, Slavica Dimovska 11/6 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 7, Guðbjörg Sverrisdóttir 6/6 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir 2/5 fráköst, Rannveig Reynisdóttir 0, Kristrún Rut Antonsdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Adda María Óttarsdóttir 0, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0.
Dómarar: Jón Guðmundsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
Mynd/ Jón Björn Ólafsson – Chazny Morris sækir að körfu Hamars í DHL-Höllinni.
Umfjöllun: Gísli Ólafsson



