Njarðvíkingar eru á flugi eftir sigra í tveim fyrstu leikjum sínum í mótinu þrátt fyrir að hafa verið fyrir mót spáð falli. Haukar urðu bráð Njarðvíkinga að þessu sinni í Ljónagryfjunni en leikurinn endaði 107:91 heimamenn í vil.
Fyrir leik bjuggust flestir við jöfnum leik milli þessara tveggja liða enda hópur liðanna nokkuð áþekkur. Bæði lið ung að árum í bland við nokkra reynslu bolta. Jafnt var á með liðunum framan af en undir lok annars leikhluta hófu Njarðvíkingar að slíta sig frá Haukum og leiddu með 9 stigum í hálfleik.
Cameron Echols hafði þá þegar gert 21 stig fyrir heimamenn og var svo sannarlega ekki hættur þar. Í seinni hálfleik komu Njarðvíkingar grimmi til leiks og héldu áfram að þjarma að Haukum. Haukar gerðu heiðarlega tilraun til að hægja á heimamönnum með svæðisvörn en það virtist aðeins hella bensíni á það bál sem fyrir var komið. Allt féll með heimamönnum á þessum tíma leiks og "buzzer" tvistur spjaldið ofaní frá Elvar Friðrikssyni toppaði svo allt.
Síðasti leikhluti var í raun formsatriði. Haukar áttu þó ekki í miklum vandræðum með að skora, það var varnarleikurinn sem var þeirra akkilesarhæll að þessu sinni þar sem að Njarðvíkingar mættu hinumegin á völlinn og náðu alltaf að svara körfum þeirra. Að sama skapi má segja að varnarleikur Njarðvíkinga hefði mátt vera sterkari því þeir fá á sig 91 stig.
Maður þessa leiks var án nokkurs vafa Cameron Echols. Hann skilaði 70% nýtingu í sínum skotum með 40 stigum og hrifsaði 16 fráköst. 48 stig í framlag segir einnig stóran hluta þeirrar sögu. Allir í liðinu voru einnig að setja í púkkið og baráttuandinn skein úr hverju andliti.
Hjá Haukum var Jovanni Shuler í sérflokki en hann setti niður 30 stig. Hörku leikmaður þar á ferð.
Viðtöl við þjálfara liðanna eftir leik á Karfan TV



