Jón Arnór Stefánsson gerði 8 stig í sigri Zaragoza á sunnudag í spænsku ACB deildinni, þá var leikið í Svíþjóð í kvöld og Helena Sverrisdóttir verður í eldlínunni á morgun með Good Angels.
Spánn:
CAI Zaragosa 86 – 66 Caja
Jón Arnór Stefánsson gerði 8 stig í liði Zaragosa, Jón var ekki í byrjunarliðinu en lék í tæpar 20 mínútur og bætti við 4 fráköstum og 1 stoðsendingu.
Monbus Blusen 61-49 Assignia Manresa
Manresa tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu, Haukur Helgi Pálsson var í byrjunarliði Manresa og skoraði 5 stig á tæpum 19 mínútum, þá var hann einnig með 1 stoðsendingu.
Svíþjóð:
Boras Basket 91-85 Sundsvall Dragons
Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá Sundsvall í leiknum með 20 stig og 3 stoðsendingar. Pavel Ermolinski bætti við tvennu með 16 stig og 11 fráköst og Hlynur Bæringsson var með 10 stig og 8 fráköst.
Solna Vikings 103-93 LF Basket
Logi Gunnarsson gerði 21 stig í liði Solna, tók 7 fráköst og var með 6 stoðsendingar en stigahæstur Víkinganna var Stephen McDowell með 42 stig og þar af 10/13 í þristum.
Uppsala Basket trónir á toppi sænsku deildarinnar, Sundsvall er í 4. sæti með 2 sigra og 2 tapleiki, 08 Stockholm, lið Helga Magnússonar, er í 7. sæti með með tvo sigra og einn tapleik, Jamtland lið Brynjars Þórs Björnssonar er í 8. sæti með einn sigur og tvo tapleiki og Logi Gunnarsson og Solna Vikings sem unnu sinn fyrsta deildarleik í kvöld eru í 9. sæti með einn sigur og þrjá tapleiki. Eina lið deildarinnar án stiga og á botninum er ecoÖrebro sem tapað hefur fjórum fyrstu leikjunum sínum.
Helena á ferðinni annað kvöld
Á morgun leika Helena Sverrisdóttir og félagar í Good Angels í meistaradeildinni (Euroleague) gegn fjendum sínum úr Ecopolis. Bæði Ecopolis og Good Angels töpuðu sínum fyrstu leikjum í Euroleague á dögunum. Ecopolis verða annað kvöld án sinnar skærustu stjörnu, Spánverjans Amaya Valdemoro, sem verður ekki á parketinu næstu tvo mánuði sökum brákaðs úlnliðs.



