Fyrir leik Hauka og Snæfells í m.fl. karla í fyrstu umferð var endurnýjaður samningur milli Actavis og Körfuknattleiksdeildar Hauka. Actavis hefur undanfarin 7 ár verið aðalstyrktaraðili deildarinnar. Í kjölfar góðs árangurs Hauka á síðasta ári ákvað Actavis að auka enn stuðning sinn við það uppbyggingar starf sem unnið er innan Körfuknattleiksdeildar Hauka en á síðasta keppnistímabili varð um 20% fjölgun ungra iðkennda hjá deildinni. Þá tókst hið árlega Actavismót mjög vel í byrjun ársins, en þátttakendum á því móti hefur fjölgað mjög undanfarin ár en um 700 krakkar víðsvegar af landinu sóttu mótið í byrjun ársins. Frá þessu er greint í tilkynningu frá KKD Hauka.
Í samningnum sem skrifað var undir s.l. föstudag hefur Körfuknattleiksdeild Hauka skuldbundið sig til að vinna gegn notkun munntóbaks hjá leikmönnum, þjálfurum og iðkendum deildarinnar sem og að fræða iðkendur körfuknattleiks um skaðsemi munntóbaks. Haukar eru fyrsta félagið hér á landi sem skrifar undir slíka skuldbindingu í samningum við Actavis.
Benedikt Sigurðsson sviðsstjóri samskiptasviðs hjá Actavis og Samúel Guðmundsson formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka skrifuðu undir samninginn. Við það tækifæri kom m.a. fram að samningurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir körfuna í Haukum og hornsteinn í uppbyggingarstarfi deildarinnar.
Á þessu ári hefur náðst góður árangur hjá mörgum flokkum deildarinnar og má þar nefna Íslandsmeistaratitil sem 9.flokkur karla vann s.l. vor með eftirminnilegum hætti og bikarmeistaratitil hjá unglingaflokki karla. Margir aðrir flokkar deildarinnar voru í baráttunni um Íslandsmeistaratitla. Þá hafa Haukar ekki átt í langan tíma fleiri leikmenn í yngri landsliðum Íslands en 10 leikmenn Hauka voru valdir í landsliðsverkefni á síðasta keppnistímabili.
Þá vann meistaraflokkur kvenna Lengjubikarinn nú nýverið og voru við undirritun samningsins við Actavis yngstu leikmenn m.fl. kvenna viðstaddir en þeir eru nú að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Þessir leikmenn hafa unnið fjölda titla upp yngri flokka starf Hauka.



