Þórsarar frá Þorlákshöfn sóttu tvö auðveld stig í Borgarnes í kvöld í þriðju umferð A-riðils Lengjubikarsins, er þeir burstuðu Skallagrím, 68-97. Yfirburðir Sunnlendinga voru miklir í leiknum og var sigur þeirra í raun aldrei í hættu.
Þróun leiksins á fyrstu fimm mínútum leiksins virtist ætla gefa góð fyrirheit um að jafn leikur væri í vændum þetta vindasama kvöld í Borgarnesi. Heimamenn byrjuðu á að hvíla þá kumpána Lloyd Harrison og Dominique Holmes og leyfðu þeim yngri að spreyta sig gegn fílefldu Úrvalsdeildarliðinu. Virtust sprækir Borgarnesstrákar standa í þeim grænklæddu en staðan var 12-12 um miðjan leikhluta. Þá gengu Þórsara á lagið. Til að gera langa sögu stutta skoruðu Sunnlendingar 18 stig í röð gegn engu stigi heimamanna og var staðan 12-30 þegar rúmlega mínúta lifði eftir af leikhlutanum. Breytti engu þó Skallagrímsmenn hrókeruðu liðskipan – áfram gengu Þórsara á lagið. Liðin skiptust loks á fáeinum stigum síðustu mínútuna og var staðan 14-31 eftir fyrsta leikhluta. Föst vörn Þórsara gerði gæfumuninn í þessu mikla áhlaupi þeirra, og í beinum tengslum: ringulreið í sóknar- og varnaleik Borgnesinga.
Heldur jafnt var með liðunum í 2 leikhluta og um skeið virtust Sunnlendingar heldur slaka á í annars fastri og herskári vörn sinni sem þeir beittu af miklum þunga allan leikinn. Sóttu Skallagrímsmenn þannig nokkur stig í greipar þeirra grænklæddu og náðu að minnka muninn í tólf stig, 32-44, með vítaskotum frá Holmes, þegar 2:38 lifði eftir af fyrri hálfeik. Því miður fyrir Borgnesinga, þá náður þeir ekki að láta kné fylgja kviði þrátt fyrir góða möguleika – töpuðu fjórum boltum í röð í næstu sóknum – og leyfðu þar með Þórsurum að auka mun sinn á nýjan leik. Hálfleikstölur voru 36-53.
Til að gera langa sögu stutta þá lönduðu Þórsara sigri sínum í miklum makindum í seinni hálfleik. Komu þeir gulu og grænu einfaldlega engum vörnum við. Minni spámenn – ungir og reynslulitlir í báðum liðum – fengu að spreyta sig í hálfleiknum og gátu þannig nýtt tækifærið til að hlaupa af sér körfuboltahornin.
Lokatölur leiksins urðu 68-97.
Með sigrinum í kvöld fara Þórsarar í 2 sæti A-riðils en Skallagrímsmenn sitja á botninum með ekkert stig. Má segja að líkur Borgnesinga til að komast upp úr riðlinum hafa farið hverfandi í kvöld. Dýrmæt reynsla og keppni býðst þó ungu liði Borgnesinga á næstunni í Lengjubikarnum enda þrír leikir eftir gegn sterkum Úrvalsdeildarliðum. Munu þeir gulu og grænu vafalaust mæta grimmir til leiks enda ekki á hverjum degi sem mögulegt er að velkja toppliðum undir uggum.
Næsti leikur Skallagríms verður á föstudaginn kemur í 1 deildinni, 11 nóvember kl. 19:15, er lið ÍA kemur í heimsókn. Sannkallaður grannaslagur er því í vændum í Borgarnesi.
Umfjöllun: HLH



