Grindavík og Haukar mættust í Lengjubikarnum í gær. Fyrir leikinn var ljóst að Grindvíkingar væru komnir áfram og því lítið að keppa að. En Haukar með Pétur R. Guðmundsson þjálfara vildu örugglega vera fyrstir til að leggja Grindavík að velli í vetur og mættu ákveðnir til leiks í fyrsta leikhluta. Þeir spiluðu einstaklega góðan sóknarleik og sást oft og tíðum mjög gott spil hjá Haukunum. Því miður var varnarleikurinn ekki af sömu gæðum og Grindvíkingar léku á als oddi í sókninni og eftir fyrsta leikhluta var staðan 39-25. Það verður að teljast nokkuð gott afrek að skora 39 stig í einum leikhluta og var Páll Axel Vilbergsson stigahæsti maðurinn á vellinum með 12 stig á aðeins 4 og hálfri mínútu og hafði hann ekki klikkað á skoti.
Grindvíkingar héldu áfram að keyra upp hraðann í 2.leikhluta en á sama tíma hægðist á Haukunum. Helgi Jónas Guðfinnsson var að dreifa spilatímanum vel milli sinna manna og dreifðist stigaskorið mjög hjá Grindavík. Grindvíkingar unnu leikhlutann 28-18 og staðan í hálfleik 67-43. Hjá Grindavík var Páll Axel stigahæstur með 15 stig og Þorleifur Ólafsson með 11 stig. Hjá Haukunum var Sævar Ingi Haraldsson að standa sig einstaklega vel og var með 9 stig og 6 stoðsendingar í hálfleik og Christopher Smith var einnig með 9 stig.
Tilþrif leiksins áttu bræðurnir Þorleifur og Ólafur Ólafssynir rétt áður en leiktíminn rann út í 2.leikhluta en þeir skiptu um hlutverk miðað við í flestum leikjum og nú var það Ólafur er gaf flotta sendingu á Þorleif er tróð með tilþrifum. Fullkominn endir á flottan fyrri hálfleik hjá Grindavík.
Það verður að segja eins og er að seinni hálfleikurinn var formsatriði. Haukarnir mættu sterkir inn í upphafi 3ja leikhluta og ætluðu að reyna að minnka muninn en eftir að Helgi Jónas tók leikhlé snemma í leikhlutanum og ræddi við sína menn þá tóku Grindvíkingar við sér. Leikhlutinn fór 15-11 fyrir Grindavík og hafði hægst mjög á báðum liðum auk þess sem hittni beggja liða var ekki eins góð og í fyrri hálfleik. Ómar Örn Sævarsson átti góða innkomu í þessum leikhluta og skoraði 9 stig og tók 8 fráköst. Haukar unnu síðan fjórða leikhluta 15-17 og lokatölur voru 97-71 í tíðindalitlum leik.
Bestir í liði heimamanna voru Páll Axel með 22 stig, Þorleifur Ólafsson með 14 stig, J‘Nathan Bullock með 11 stig, Ómar Örn Sævarsson með 9 stig og 12 fráköst og Ólafur Ólafsson með 9 stig og 4 stoðsendingar.
Hjá Haukunum var Sævar Ingi Haraldsson bestur með 15 stig, 7 stoðsendingarog 7 fráköst, Christopher Smith með 16 stig og 9 fráköst og Davíð Páll Hermannsson með 14 stig.
Mynd/ Úr safni
Umfjöllun/ Bryndís Gunnlaugsdóttir



