Breiðablik skilaði tveimur stigum í hús í Kópavoginum eftir sannfærandi sigur á Skagamönnum í gærkvöld, 88-65, en staðan var í hálfleik, 41-29, Blikum í vil. Eftir leikinn eru Blikar í 4. sæti 1. deildar með 10 stig en piltarnir frá Jaðarsbökkum sitja í 7. sæti með 6 stig.
Blikar, sem léku í grænu búningum á heimavelli að þessu sinni, höfðu tögl og hagldir nær allan leikinn og leiddu en náðu samt aldrei að hrista baráttuglaða Skagamenn af sér. Gestirnir gulu hittu afar illa í leiknum og hefðu með aðeins betri hittni getað veitt Blikum verðuga keppni um stigin tvö sem í boði voru. Jaðarsbakkapiltar hittu aðeins úr 37% tveggja stiga skota og 50% víta og mega naga sig í handabökin yfir þessari slöku nýtingu. Nokkrum sinnum tókst þeim í leiknum að ná muninum niður fyrir hinn sálfræðilega þröskuld – tíu stig – en komust ekki lengra því fjölmörg tækifæri þeirra fóru í súginn.
Liðsheild Blika var góð í leiknum og margir að skila ágætis framlagi. Kópavogspiltar fengu mun fleiri stig frá bekknum heldur en andstæðingarnir sem sýnir góða breidd í liðinu. Arnar Pétursson var stigahæstur Kópvæginga með 28 stig en má sem leikstjórnandi losa boltann fyrr til að auka flæðið í sóknarleiknum. Steini, sem hefur verið einn besti maður liðsins, hafði heldur hægt um sig í stigaskori en þess í stað hirti hann urmul frákasta. Aðrir voru ágætir og verður gaman að fylgjast með framhaldinu.
Hjá Skagamönnum var hinn armlangi Terrence Watson áberandi í leik þeirra með 18 stig og 18 fráköst, Sigurður Rúnar var sprækur og setti 10 stig og gamla brýnið Dagur Þórisson gerði 14 stig og lét finna vel fyrir sér í vörninni.
Stigaskor:
Breiðablik: Arnar Pétursson 28/4 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 17, Þorgrímur Guðni Björnsson 12, Þorsteinn Gunnlaugsson 8/16 fráköst, Rúnar Pálmarsson 7, Snorri Hrafnkelsson 6, Ægir Hreinn Bjarnason 4, Bragi Michaelsson 3, Atli Örn Gunnarsson 2/6 fráköst, Hjalti Már Ólafsson 1, Ásgeir Nikulásson 0, Hákon Bjarnason 0.
ÍA: Terrence Watson 18/18 fráköst/4 varin skot, Dagur Þórisson 14/5 fráköst, Sigurður Rúnar Sigurðsson 10/7 fráköst, Trausti Freyr Jónsson 8, Ómar Örn Helgason 6/4 fráköst, Hörður Kristján Nikulásson 4, Birkir Guðjónsson 3, Áskell Jónsson 2/5 fráköst, Þorsteinn Helgason 0, Daniel Ivan F. Andersen 0, Þorleifur Baldursson 0, Jón Rúnar Baldvinsson 0.
Umfjöllun/ Gylfi Freyr Gröndal



