Stjarnan sigraði Val í gærkvöld, 99-80 í 8 liða úrslitum bikarkeppni drengjaflokks, en leikið var í Ásgarði.
Ágætur hraði var í leiknum strax í byrjun og skiptust liðin á að skora og leiddu Stjörnudrengir með 1 stigi eftir fyrsta leikhluta.. Góður leikkafli Stjörnunnar í byrjun annars leikhluta kom muninum í 5 stig áður en Valsmenn náðu að jafna leikinn og komast 2 stigum yfir 33-35. Stjörnudrengir hertu þá róðurinn og kláruðu leikhlutann af krafti og leiddu 50-43 í hálfleik í ansi sveiflukenndum leik.
Stjörnumenn komu sterkari til leiks inn í seinni hálfleikinn og náðu snemma 10 stiga forystu, en því svöruðu gestirnir með 13 stiga áhlaupi og komust yfir 55-58. Enn einn sterkur leikkafli heimamanna snéri þá leiknum aftur þeim í vil, en leiklutanum var lokað með 14-2 áhlaupi og staðan 69-60 fyrir lokafjórðunginn. 9-0 kafli í byrjun fjórða leikhluta gerði svo út um leikinn, sem heimamenn sigldu í örugga höfn, 99-80.
Hjá Stjörnunni var Daði Lár Jónsson stigahæstur með 27 stig og Darri Logi Skúlason skilaði 21 stigi. Hjá Valsmönnum skoraði Hlynur Logi Víkingsson 21 stig og Benedikt Blöndal 17 stig.



