Rimma af stærri gerðinni verður á boðstólunum í kvöld þegar 16-liða úrslitum í Poweradebikarkeppni karla lýkur en þá eigast við KR og Grindavík í DHL-Höllinni kl. 19:15. Nú er ráð að mæta tímanlega enda hafa þessi lið eldað saman grátt silfur síðustu ár og má fastlega gera ráð fyrir fjölmenni í vesturbænum í kvöld.
KR-ingar eiga titil að verja en þeir lögðu einmitt Grindvíkinga í bikarúslitum á síðustu leiktíð með 94-72 sigri. Það er því deginum ljósara að þessi tvö lið komast ekki saman í Laugardalshöllina þetta árið.
Íslands- og bikarmeistarar KR eiga harma að hefna í kvöld því síðast þegar Grindavík kom í heimsókn í DHL-Höllina í deildarkeppninni fóru leikar 59-85 Grindavík í vil þar sem Finnur Atli Magnússon var eini röndótti með lífsmarki. Töluvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og KR-ingar skipt út tveimur erlendum leikmönnum og fengið inn þrjá nýja í þeirra stað.
Verður það Hrafn Kristjánsson eða Helgi Jónas Guðfinnsson sem fer með sitt lið í bikarskálina frægu á morgun?
KR-Grindavík
16-liða úrslit
Kl. 19:15 í DHL-Höllinni



