Guðjón Skúlason trónir enn á toppi úrvalsdeildar karla yfir flestar skoraðar þriggja stiga körfur. Alls skoraði kappinn 965 þrista á ferlinum og hefur haldið næstu mönnum vel fyrir aftan sig. Nú hefur Páll Axel Vilbergsson leikmaður Grindavíkur hinsvegar skotið þeim Teiti Örlygssyni og Kristni Geir Friðrikssyni ref fyrir rass og búinn að smokra sér þægilega í 2. sætið.
Páll Axel hefur skorað 883 þriggja stiga körfur í deildarkeppni úrvalsdeildarinnar og er því kominn í 2. sætið og aðeins 82 þristum frá því að jafna met Guðjóns. Í 3. sæti er Teitur Örlygsson með 746 þrista, Kristinn Geir Friðriksson er í 4. sæti með 673 þrista og í 5. sæti er Valur Ingimundarson með 593 þrista.
Páll og Grindvíkingar mæta KR í kvöld í 16 liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar og þeir þristar sem kappinn setur niður þar telja ekki enda er aðeins um þrista í úrvalsdeild á venjulegri leiktíð að ræða, úrslitakeppnin er ekki talin með heldur.



