Næstkomandi laugardag fara Poweradebikarúrslit karla og kvenna fram í Laugardalshöll. Í kvennaleiknum mætast Njarðvík og Snæfell en í karlaleiknum eigast við Tindastóll og Keflavík. Fjörið hefst kl. 13:30 laugardaginn 18. febrúar í Laugardalshöll. Það verður enginn annar en Sturla Stígsson ein aðalsprautan á Fúsíjama TV sem ríður á vaðið með fyrstu spánna en kappinn er einnig framkvæmdastjóri Körfuknattleiksdeildar UMF Bolungarvíkur.
Kvennaleikurinn: Njarðvík-Snæfell (13.30)
Hvernig spilast þessi?
Það verður lítið skorað í fyrri hálfleik enda stressið í fyrirrúmi. Spái að Njarvíkingar verði ávallt skrefinu framar með 8-12 stiga forskot sem Snæfellsstúlkur nái ekki að brúa.
Hver mun stíga upp og baka sér myndarlega bikarminningu?
Mig grunar að Salbjörg Sævarsdóttir eigi eftir að stíga hressilega upp fyrir Njarðvík í leiknum og að minnsta kosti tvöfaldi meðalskorið sitt úr deildinni. Fúsíjama TV heitir á hana pylsu og kók ef hún þrefaldar það!
Hver verður bikarmeistari?
Það þurfa undur og stórmerki að gerast til þess að Njarðvík vinni ekki þennan leik. Þær eru 3-0 á móti Snæfell í vetur og fóru mikið erfiðari leið til að komast í úrslitaleikinn heldur en Snæfell. Snæfell á séns ef Alda Leif og Hildur spila vel en ég veðja samt á að Njarðvík taki þetta 65-72.
Ef Alda og Hildur spila hins vegar eins og það sé aftur komið árið 2003 þá eru allar fyrri yfirlýsingar og spár afturkallaðar!
Karlaleikurinn: Tindastóll -Keflavík (16.00)
Hvernig spilast þessi?
Maggi Gunnars verður fullur af orku í byrjun eftir að hafa gætt sér á nokkrum Lay’s flögum fyrir leikinn og Keflavík mun fljótlega ná 10 stiga forustu. Hef þó trú á því að Stólarnir spili sig aftur inn í leikinn og að þetta verði háspenna lífshætta á lokasprettinum þar sem Maggi á lokaskotið.
Hver mun stíga upp og baka sér myndarlega bikarminningu?
Er nokkuð asískur leikstjórnandi á endanum á bekknum hjá öðru hvoru liðinu? Ef ekki þá verður það Igor Tratnik. Eftir vægast sagt hörmulegt gengi með Val þá held ég að hann eigi eftir að leggja allt í sölurnar til þess að næla sér í sína fyrstu medalíu síðan hann varð 1. deildarmeistari með KFÍ fyrir tveimur árum.
Hver verður bikarmeistari?
– Raunsæisröddin í mér segir Keflavík en ég hef aldrei verið mikið fyrir að hlusta á hana þannig að minn peningur er á "undirhundana" í Tindastól. Lokatölur 89-92, þú last það hérna fyrst.
Mynd/ myndin er samsett og er að hluta til fengin að láni hjá http://www.umfb-basketball.com en á litlu innfelldu myndinni er Sturla Stígsson.



