Keflvíkingar urðu í dag bikarmeistarar í 10. flokki kvenna eftir öruggan sigur á stöllum sínum úr Grindavík. Keflavík tók snemma frumkvæðið í leiknum og kláraði dæmið 59-42. Sara Rún Hinriksdóttir var valin besti maður leiksins en hún gerði 24 stig, tók 12 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og stal 3 boltum í liði Keflavíkur. Hjá Grindavík var Ingibjörg Sigurðardóttir atkvæðamest með 22 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar.
Það örlaði á bikarstressi hjá liðunum í upphafi leiks, fyrstu tvær sóknirnar fengu liðin dæmt á sig skref en svo fór hrollurinn úr þeim smátt og smátt. Grindvíkingar mættu með svæðisvörn til leiks en Keflvíkingar pressuðu á gular og rökuðu þar nokkrar góðar sekúndur af skotklukkunni. Skotnýting Grindavíkur var afleit í fyrsta leikhluta og því leiddu Keflvíkingar 16-6 að honum loknum.
Ingibjörg Sigurðardóttir minnkaði muninn í 23-11 með þriggja stiga körfu fyrir Grindavík snemma í öðrum leikhluta og skotin fóru loks að rata sum hver rétta leið hjá gulum. Keflvíkingar voru þó við stjórnartaumana og uppskáru vel fyrir áræðni sína í sóknarfráköstum og fengu oft tvo til þrjá sénsa á að ljúka sínum sóknum. Dýrt fyrir Grindavík að flaska á undirstöðum eins og að stíga út svo Keflvíkingar leiddu 31-15 í leikhléi.
Sandra Lind Þrastardóttir var með 7 stig og 9 fráköst hjá Keflavík í leikhléi en hjá Grindvíkingum var Rannveig María Björnsdóttir með 7 stig og 2 fráköst.
Varnarleikur Keflavíkur var þéttur í upphafi þriðja leikhluta og að sama skapi gekk Grindvíkingum illa að finna körfuna en þó vantaði ekkert upp á baráttuna hjá þeim. Keflvíkingar voru afar öruggir í sínum aðgerðum og unnu þriðja leikhluta 18-7. Keflavík leiddi 49-22 eftir þriðja leikhluta þar sem Sara Rún Hinriksdóttir átti góða spretti og var komin með 20 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar fyrir fjórða og síðasta hlutann.
Fjórði leikhluti náði aldrei að verða spennandi, Keflvíkingar tóku byrjunarliðið sitt af velli þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Grindvíkingar náðu þá að brúa bilið lítið eitt en lokatölur reyndust 59-42 Keflavík í vil.
Karfan.is óskar Keflavík til hamingju með bikartitilinn!
Keflavík:
Sara Rún Hinriksdóttir 24 stig, 12 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolnir boltar
Sandra Lind Þrastardóttir 7 stig, 15 fráköst, 3 stoðsendingar
Grindavík:
Ingibjörg Sigurðardóttir 22 stig, 10 fráköst, 4 stoðsendingar
Rannveig María Björnsdóttir 12 stig, 5 fráköst
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]



