spot_img
HomeFréttirMarkmiðið að hjálpa leikmönnum að verða betri - Viðtal við Kjartan Atla...

Markmiðið að hjálpa leikmönnum að verða betri – Viðtal við Kjartan Atla Kjartansson þjálfara FSu

Í haust hóf ungur þjálfari, Kjartan Atli Kjartansson, störf við Körfuboltaakademíu FSu á Selfossi. Hann þjálfaði einnig meistaraflokkslið félagsins í 1. deild karla, en þetta var frumraun hans sem þjálfari í meistaraflokki. Tíðindamanni körfunnar.is lék forvitni á að vita hvernig reynslan af vetrinum legðist í hann en einnig, og ekki síður, hvernig starfsemin gengi fyrir sig í þessu nýsköpunar- og frumkvöðlasetri íslensks körfuknattleiks – ja, íslenskrar íþróttahreyfingar og skólakerfis – nú tæpum sjö árum eftir að akademían var sett á laggirnar, 23. júní 2005.
Nú er sæti FSu liðsins tryggt í 1. deildinni, hvernig líður þjálfaranum á þeim tímamótum?
 
„Þegar við fórum af stað, það er víst óhætt að uppljóstra því núna, ætluðum við okkur stærri hluti. Við ætluðum að lauma okkur inn í úrslitakeppnina og við ætluðum líka að spila þetta á heimamönnum eingöngu. En úr því sem komið var erum við náttúrulega ánægðir að vera búnir að tryggja okkur, þó ég hafi reyndar aldrei hræðst það að liðið myndi falla. Mér fannst að miðað við getuna og spilamennskuna ættum við það ekki skilið“.
 
En nú var þetta hrein fallbarátta seinni hlutann og ekki langt í næsta lið?
 
„Já, það er rétt, en þegar við unnum ÍG og tókum yfirhöndina gegn þeim innbyrðis þá fannst mér við komnir í góða stöðu. Þeir hjálpuðu líka til, óneitanlega, það kvarnaðist úr þeirra hópi og svona. En við tókum líka stórt skref með því að leggja Breiðablik hérna heima, sá leikur var mjög mikilvægur. Ég er líka hvað ánægðastur með það að ungu trákarnir stigu upp í lokin. Við spiluðum á tiltölulega fáum mönnum lengi framan af og ungu strákarnir áttu erfitt með að finna taktinn, að mínu mati, en í lok tímabils fóru þeir að skila framlagi sem við þurftum á að halda og það er bara frábært“.
 
Það kom fram hjá þér áðan að árangurinn í lok tímabils er ekki alveg í samræmi við markmiðin í upphafi. Hverjar heldur þú að séu megin skýringarnar á því?
 
„Ég tek þetta að hluta til hiklaust á mig, sem ungan og óreyndan þjálfara í meistaraflokki. Mér fannst í fyrsta lagi ákveðin rómnatík fólgin í því að spila þetta alfarið á íslenskum strákum. Ég er búinn að ræða þessi mál við góðvin minn, Justin Shouse, sem hefur fylgst með okkur, og eins og hann sagði, þá vorum við alltaf í bullandi sjens þegar við vorum að spila á móti liðum með einn og stundum tvo útlendinga, og töpuðum með litlum mun, en þegar liðin fóru að bæta við sig fleiri mönnum, þá drógumst við aftur úr og við brugðumst við því með því að ráða Bandaríkjamann í okkar lið. Í öðru lagi má segja að ég hafi kannski ofmetið stöðu liðsins. Strákarnir voru hreint út sagt frábærir á æfingum í sumar, mjög hátt tempó á öllum æfingum. Ég fylgdist líka svolítið með öðrum liðum, á höfuðborgarsvæðinu, og mér fannst við líta mjög vel út. Það sem gerist svo er að við náum ekki að færa frammistöðuna á æfingum inn í leikina, þegar mótið byrjar. Ég hef sjálfsagt líka vanmetið hin liðin, enda þau fæst komin með fullmótaðan hóp á þeim tíma. Svo byrjar mótið og við spilum fyrstu leikina á móti fjórum af bestu liðunum, ég vil meina að ÍG með Helga Jónas og Gumma Braga innaborðs hafi verið eitt af bestu liðunum. Við töpuðum þremur af þessum leikjum en unnum einn en stigahlutfallið hjá okkur var þrátt fyrir það 3 eða 4 stig í plús, þannig að þessir tapleikir voru allir tæpir og með smá reynslu og heppni hefðum við getað tekið alla þessa leiki og þá hefði verið komin upp svolítið önnur staða fyrir framhaldið og sjálfstraustið í liðinu. En nú er þetta bara orðið að mikilvægri reynslu fyrir strákana, sem nýtist þeim í framhaldinu“.
 
 
En eitthvað hlýtur þú líka að vera ánægður með eftir veturinn, hvernig liðið hefur þróast?
 
„Já, ég er mjög ánægður með það að hver og einn leikmaður hefur tekið framförum í vetur, og þó flestir fylgist sérstaklega með framförum hjá ungu strákunum þá hafa allir bætt sig mikið að mínu mati, líka þessir eldri, þó enginn sé í raun og veru neitt gamall eða með mikla reynslu í þessu liði. Þetta er ég ánægðastur með. Ég er líka ánægður með það að við unnum þá leiki sem við þurftum að vinna og við spiluðum marga fína leiki, bæði sigur- og tapleiki, þar sem við gátum borið höfuðið hátt í leikslok. Við áttum í erfiðleikum með nokkur lið, þar sem við réðum illa við einstaka leikmenn, eins og Hamar og ÍA. Við áttum í miklum erfiðleikum með hæðina í Hamarsliðinu og kanann hjá ÍA. Ég var óánægður með útileikinn gegn ÍA, KFÍ réðum við ekkert við á Ísafirði, Skallagrím í Borgarnesi og Hamar bæði heima og úti, en hinir leikirnir voru bara nokkuð góðir“.
 
Þó þú hafir töluverða reynslu af þjálfun yngri flokka þá ertu nýgræðingur í meistraflokki. Var eitthvað sem kom þér á óvart þegar þú tókst við þessu starfi?
 
„Það kom mér svolítið í opna skjöldu hvað ég þarf að kryfja allt miklu dýpra núna. Þegar ég var að þjálfa yngri flokka hjá Stjörnunni var ég búinn að kenna ákveðinn grunn á löngum tíma og gat því skipt um varnarafbrigði eins og ekkert væri. Þessum varnarafbrigðum ætlaði ég að henda inn hér líka en lærði það fljótlega að það gengur ekki á svona stuttum tíma. Við þurftum því að bakka út úr allskyns svæðisvarnarafbrigðum tiltölulega fljótt og einbeittum okkur þá bara að færri afbrigðum, maður á mann vörn, 2-3 svæði og 2-2-1 svæðispressu. Það þarf miklu lengri tíma og grunnvinnu til að geta spilað vel mörg ólík varnarafbrigði. Annað kom mér í sjálfu sér ekki mjög á óvart, nema hvað það var miklu betra að stjórna eftir að ég hætti að spila og fór bara á hliðarlínuna. Liðið vantaði „haus“ á hliðarlínuna lengi framan af og ég þurfti bara að taka þá ákvörðun að hætta að spila og einbeita mér að þjálfuninni, ég var bara allt of lengi að fatta það“.
 
Það hefur nú lengi verið talið erfitt að vera spilandi þjálfari, hvað þá fyrir reynslulausa menn?
 
„Já, algjörlega, eins og ég sagði við einhvern, þá óska ég engum þess að vera spilandi þjálfari, það er hundleiðinlegt, alveg hundleiðinlegt“.
 
En hvað viltu segja um ytri aðstæður hér, möguleikana á því að búa til gott körfuboltalið?
 
„Það hefur nú lengi verið reynt. Þetta er svolítið sérstakt umhverfi, með körfuboltabæi hérna í kring en handbolta og fótbolta hér. Ég upplifi stöðuna á svipaðan hátt og í Garðabæ, þegar við vorum að byrja þar. Þá var Garðabær bara fótbolti og handbolti en nú er karfan þar orðin stærri en handboltinn. Ég upplifi stöðuna hér þannig að þetta sé svolítið tvískipt. Það eru nokkrir sem hafa brennandi áhuga og svo eru aðilar sem eru velviljaðir, eins og fólkið hérna í íþróttahúsinu, stjórn skólans og fleiri. Það er allt mjög gott. En svo þegar komið er út í samfélagið þá er handboltaáhuginn einhvern veginn rótgrónari í vitund fólks og það er svolítið erfitt við það að eiga því það hefur áhrif á það hvert krakkarnir fara þegar þeir velja sér íþrótt til að æfa. Þetta hefur líka áhrif á fleira, t.d. fjármagn og æfingatíma. Við verðum að sætta okkur við að æfa alltaf seint á kvöldin og það er ekkert endilega gott fyrir krakkana sem eru í akademíunni, svo dæmi sé tekið. En þetta er staðan og þá er bara að finna réttu úrræðin“.
 
 
Þú stjórnar körfuboltaakademíu FSu jafnframt því að þjálfa meistaraflokkslið karla. Akademían fór af stað með töluverðum hvelli hjá Brynjari Karli, síðan voru Rob Newson og Valur Ingimundarson hér í eitt ár hvor og nú ert þú búinn að vera í eitt ár líka. Hvað finnst þér um hugmyndafræðina að baki akademíunni?
 
„Upphafið að þessu var hrein snilld og uppbyggingin hér var til hreinnar fyrirmyndar, og þá meina ég það bókstaflega, því það eru lið á höfuðborgarsvæðinu sem hafa hent þessa hugmynd á lofti og vinna eftir henni núna, bæði Haukar og Fjölnir. Það breytir strax umhverfinu fyrir okkur, því þá verður auðvitað erfiðarar að fá krakka af því svæði hingað, koma á heimavistina og svona. Þetta skekkir myndina miðað við upphafsár akademíunnar. Nú einbeitum við okkur meira að Suðurlandi. Við höfum t.d. verið í miklu og góðu samstarfi við Hrunamenn og kvennaliðið okkar er eiginlega blanda af öllu Suðurlandi, þær komust í bikarúrslit á þessu ári. Á næsta ári koma hingað krakkar frá fleiri stöðum á Suðurlandi, t.d. frá Hellu. Þannig að áherslurnar hafa breyst og við horfum alls ekki á liðið sem lið Selfoss, heldur frekar lið Suðurlands, enda akademían við fjölbrautaskóla allra Sunnlendinga. Krakkar úr t.d. Þorlákshöfn og Hveragerði ættu tvímælalaust að nýta sér akademíuna og þessa aðstöðu hér, þó þeir kjósi að keppa með sínum heimaliðum, þeir hefðu bara gott af því. Ég held líka að ef þessi félög hér á svæðinu sameinuðust um að keppa í t.d. 11. flokki og drengja/stúlknaflokki með „skólaliðinu“, þá gætu Sunnlendingar verið að keppa um titla á hverju ári, sem þau geta ekki hvert í sínu lagi. Auðvitað er þetta eitthvað viðkvæmt en ég held að það væri til heilla, ekki síst fyrir krakkana, ef þessi stefna væri tekin. Við getum tekið gott dæmi af Marín Laufeyju Davíðsdóttur, sem var lengi eina stelpan og æfði með strákunum. Nú spilar hún með Hamri í meistraflokki í efstu deild og stendur sig frábærlega, svona ung stelpa. Framfarirnar hjá henni hafa verið stórkostlegar. Þetta ættu fleiri krakkar hér allt í kring að taka sér til fyrirmyndar. Við viljum alls ekki vera neitt ógnvekjandi gagnvart öðrum liðum hér, varðandi unglingastarfið, heldur bara í jákvæðu samstarfi, enda fjölbrautaskólinn, sem fóstrar þetta starf, eign allra Sunnlendinga. Hinsvegar verðum við líka að hugsa það til framtíðar hvað við viljum vera. Viljum við vera akademía með meistaraflokkslið eða meistaraflokkslið með akademíu? Ég held að það sé mikilvægt að vera með samkeppnishæf meistaraflokkslið, án þess ég sé að segja að ég vilji fara að kaupa menn í kippum, alls ekki. En til þess að framþróun verði og meiri áhugi vakni þarf að vera til staðar sæmilega áhugavert flaggskip, sem krakkar eru spenntir fyrir“.
 
Það skapaðist gríðarskemmtileg stemmning hér þegar liðið var í úrslitakeppni 1. deildar, ekkert síðri en þegar það lék í úrvalsdeild?
 
„Já, einmitt, það er svo mikilvægt að komast í stóru leikina. Þess vegna hafði ég ekkert endilega áhuga á því að fara upp, heldur að ná fjórða sætinu og þar með sæti í Lengjubikarnum. Með því hefðum við fengið hingað úrvaldsdeildarliðin, fleiri áhugaverða leiki“.
 
Þú varst með hóp af kornungum strákum í höndunum í vetur, sem stigu upp undir lok tímabilsins, eins og þú sagðir áðan. Hvernig meturðu möguleika þessa hóps til þess að geta orðið dálítið gott lið?
 
„Það er eitt að vera góður í körfubolta og annað að vera í góðu liði. Ég var að ræða þetta um daginn við drengjaflokkinn: Viltu vera lítil sneið af stórri köku eða stór sneið af lítilli köku? Menn fá auðvitað mismikið af hæfileikum í vöggugjöf. Hér eru nokkrir einstaklingar sem gætu orðið mjög góðir og hjálpað hvaða liði sem er núna strax. Það er samt ómögulegt að nefna einhver nöfn, því maður veit aldrei hver verður bestur þegar upp er staðið. Við stefnum líka að því að hjálpa öllum að komast lengra, m.a. út fyrir landsteinana. En krakkarnir hér verða líka að átta sig á því hvað þeir hafa heima hjá sér. Hér er frábær aðstaða, hægt að komast í lyftingasalinn hvenær sem er, æft er 10-12 sinnum í viku eða meira, og þar fyrir utan er heilt lið bara fyrir þá, 16-19 ára unglingar og það er stjórn og allskonar batterí í því að halda úti heilu liði, bara fyrir þá. Þetta verða þessir krakkar að nota. Og hvernig nota þeir það? Jú, með því að æfa meira og betur en jafnaldrar þeirra annars staðar. Hérna eru þeir með aðstöðu, aðhald og heilan klúbb í kringum sig og það er engin afsökun að nýta sér það ekki. Fyrsta hugsun okkar í kringum þetta er bara: Hvernig getum við hjálpað krökkunum að verða betri leikmenn? Ekki: Hvernig getur liðið náð árangri? Þessi hugsun held ég að sé einstök í íslenskum körfubolta. Of oft eru menn að tjalda til einnar nætur og pæla í því hvernig þeir geta unnið titilinn í ár.
 
Árangur er líka afstæður. Árangur fyrir unga körfuboltaakademíu er bara hvernig krökkunum gengur sem þar eru og hafa verið. Þar liggur þetta allt. En hérna er hellings talent og hugsunin fyrir næsta ár er bara sú sama, að hjálpa þeim að bæta sig. Við erum líka svo heppin að vera með nokkra góða aðeins eldri menn, eins og t.d. bræðurna Þorkel og Bjarna sem eru gríðarlega mikilvægir, enda félagsmenn miklir með hjartað á réttum stað. Nú liggur bara fyrir að fá að vita hverjir ætla að vera með næsta ár og hvað þeir vilja gera. Í framhaldinu þarf að endurmeta hópinn og setja fram ný markmið.
 
Vonandi verður svo sett einhver vitræn regla um útlendingana sem fyrst. Það skiptir auðvitað verulegu máli. Af því við vorum að tala um reynsluleysi mitt áðan, þá hefðu reyndir þjálfarar kannski bara sagt: „Ég vil fá tvo kana“. Ef við hefðum strax frá byrjun verið með kana sambærilega t.d. við þá sem eru í Hetti, þá værum við að tala um allt annað mál. Þá væri liðið að keppa á hinum enda deildarinnar, svo einfalt er það. En það er ekki bæði haldið og sleppt og í staðinn hefðu ungu strákarnir þá ekki fengið að axla þá ábyrgð sem þeir gerðu, og ekki fengið þetta tækifæri til að stíga upp á seinni hluta tímabilsins og leiða liðið áfram.
 
Oft er sagt að þjálfarar séu bara metnir eftir sigrum og töpum. Ég vil miklu frekar vera metinn út frá því hvort leikmennirnir sem spiluðu fyrir mig hafi lært eitthvað á því. Út frá því sjónarhorni held ég að við höfum náð raunverulegum árangri í vetur. Það er heldur ekki sama hvernig spilað er úr þeim spilum sem þjálfarinn hefur á hendi. Ef við lítum t.d. á KFÍ þá held ég að ungir íslenskir strákar þar, t.d. Ari, Kristján Pétur og Hlynur, hafi fengið ekki minna út úr vetrinum en okkar strákar, þó það séu þrír útlendingar á Ísafirði. Meginmálið er hvernig unnið er úr spilunum. Í okkar liði voru það bara Bjarni Bjarnason og svo ég, sem höfðum einhverja reynslu sem leiðtogar í liði, Bjarni leiddi lið Laugdæla og ég spilaði með Stjörnunni í mörg ár, bæði í 1. deild og úrvalsdeild. Þorkell hætti í mörg ár og er bara nýbyrjaður aftur og er því ungur að körfuboltaárum, ef svo má segja, þó hann sé nokkrum árum eldri en flestir strákarnir. Hinir, eins og t.d. Sæmundur, Orri, Birkir og Svavar spiluðu fremur lítil hlutverk með FSu í fyrra og undanfarin ár, að ekki sé talað um aðra, þannig að það var klárlega mikið tækifæri fyrir þá að auka framlag sitt í liðinu“.
 
Hvað með framtíðina? Verður þú áfram með liðið?
 
„Við erum rétt að byrja að ræða þessa hluti. Þetta var erfiður vetur og ég er búinn að sjá það að ef þetta á að ganga þá verð ég að hætta að spila. Ég vil ekki taka annan vetur sem spilandi þjálfari og nú þarf ég bara að spyrja sjálfan mig: Er ég tilbúinn að leggja skóna á hilluna 27 ára gamall, aldrei meiðst og varla misst úr leik? Það er auðvitað mjög erfið ákvörðun. Á móti þarf ég að spyrja: Er þetta ekki einmitt rétta tækifærið til að hætta fyrir? Þetta verð ég að gera upp við mig. Ég er búinn að tilkynna stjórninni það að ég vilji ekki vera spilandi þjálfari aftur. En ég er með samning, og eins og staðan er í dag, þá held ég áfram“.
 
Myndir/ Baldur Beck – www.nbaisland.blogspot.com, Karfan.is og www.sunnlenska.is
 
Viðtal/ Gylfi Þorkelsson
Fréttir
- Auglýsing -