Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir leikmaður KFÍ þekkir til í vesturbænum en þessi Grindvíkingur hefur leikið heima í héraði, með KR og nú með KFÍ í 1. deild kvenna. Í ljósi úrslitaleiksins sem fram fer í kvöld í Hafnarfirið millum Hauka og KR um síðasta sætið í úrslitakeppninni þá tókum við stuttan púls á Sólveigu sem gerir ráð fyrir spennandi leik.
,,Þetta verður hörkuleikur þar sem allt er í húfi og hvorugt liðið tilbúið að fara í sumarfrí. Ég hef reynt að fylgjast eins mikið og ég get með deildinni í vetur og hún er búin að vera mjög skemmtileg þar sem ekki er hægt að sjá nein úrslit fyrirfram. KR liðið hefur orðið fyrir miklu áfalli að missa bæði Bryndísi og Helgu svo það mun mæða enn meira á hinum leikmönnunum og sérstaklega Köru. Það er gaman að sjá Finn á hliðarlínunni og spennandi að sjá hvað hann nær út úr liðinu í kvöld í þessum stóra leik," sagði Sólveig sem gerir þó ráð fyrir sigri Hauka.
,,Haukar virðast hafa fengið hörkuleikmann miðað við tölurnar hjá henni í fyrsta leik og hafa verið að spila ágætilega þrátt fyrir nokkra tapleiki að undanförnu. Þetta verður spennandi leikur sem ég held þó að Haukarnir nái að klára með minnsta mun."
Mynd/ [email protected] – Sólveig Helga í leik með KR.



