spot_img
HomeFréttirEinar: Erum djúpir og reynum að rúlla vel á hópnum

Einar: Erum djúpir og reynum að rúlla vel á hópnum

Ísland vann í kvöld öruggan sigur á Sviss í sínum fyrsta leik á EM í B-deild U18 ára liða sem nú fer fram í Bosníu. Karfan.is náði í Einar Árna Jóhannsson þjálfara liðsins sem kvað hitann úti vera mikinn og ekkert grín fyrir leikmenn Íslands að hlaupa í þessum aðstæðum.
,,Ferðalagið út var langt, um 17 tímar þangað til við vorum komnir á hótel og menn voru þreyttir í gær og hópurinn var farinn að sofa um 22. Tókum svo morgunmat snemma og létta æfingu í morgun áður en menn fengu að taka því rólega framan af degi. Leikurinn var svo eign okkar frá fyrstu mínútu í kvöld þar sem við vorum að spila mjög vel í fyrri hálfleik og skorum einhver 26 stig úr hraðupphlaupum. Leiðum í hálfleik með 19 og náum mest 30 stiga forystu snemma í þriðja en eigum vondan kafla í síðari hluta þriðja þar sem þeir ná 14-0 áhlaupi. Kláruðum svo leikinn á öruggum nótum og sigurinn svosem fyrir öllu," sagði Einar sem spilaði á öllum 12 leikmönnum liðsins í kvöld.
 
,,Við komum 11 mönnum inn í fyrri hálfleik og öllum 12 í leiknum og margir að leggja í púkkið. Dagur Kár kom mjög sterkur af bekknum á báðum endum vallarins, og Matthías kom sömuleiðis sterkur af bekk og nýtti sín skot vel. Elvar stýrði sóknarleiknum vel og leikmenn eins og Maciej og Emil voru mjög traustir á báðum endum," sagði Einar sem stýrir íslenska liðinu gegn sterku liði Svartfellinga á morgun.
 
,,Hitinn hérna er mikill og það er ekkert grín fyrir drengina að hlaupa í þessum aðstæðum, en á móti erum við djúpir og reynum því að rúlla vel á hópnum. Nú erum við á leið á liðsfund þar sem við förum yfir leik kvöldsins og leggjum upp dagskrá morgundagsins. Við tökum létta æfingu og videófund fyrri partinn á morgun og mætum svo Svartfellingum annað kvöld, en þeir unnu Finna með fimm stigum í hörkuleik í kvöld."
 
  
Fréttir
- Auglýsing -