Miðherjinn Stefán Karel Torfason gerði 13 stig fyrir Ísland í fræknum sigri gegn Svartfellingum í gær en Karfan.is náði á kappann í gærkvöldi sem sagði að um svakalegan liðssigur hafi verið að ræða.
,,Undirbúningur fyrir leikinn var þannig að við reyndum að hafa bara allt eins og áður, góð hvíld og áður en við fórum niður í höllina vorum við allir að öskra og peppa hvorn annan upp," sagði Stefán Karel sem ætti að vera full fær um að keyra eitt stykki körfuboltalið í gang enda tröll að burðum þrátt fyrir ungan aldur.
,,Sigurinn var svakalegur liðssigur en við byrjum mjög illa og það tók smá tíma að ná vörninni góðri. Við getum alltaf skorað enda með hörku skorara í liðinu en við þurfum að spila okkar varnarleik því þá gengur allt eins og í sögu," sagði Stefán og vörnin hrökk í gang svo um munaði og Svartfellingum haldið í aðeins 68 stigum í leiknum.
,,Stemmningin í hópnum núna er svakaleg enda ekkert smá stórt fyrir Ísland að vinna svona þjóð þar sem körfubolti er ekkert annað en trúarbrögð. Hópurinn okkar hefur aldrei verið þéttar og nú erum við komnir með tvo sigra en það eru þrír leikir eftir í riðlinum og þeir eru ekki síður mikilvægir en þessir fyrstu tveir. Við þurfum að halda okkur á jörðinni og halda áfram að spila góðan bolta."



