Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður hjá Morgunblaðinu ritar grein á íþróttasíður Morgunblaðsins í dag undir yfirskriftinni: Nýr kafli í íslenskri körfuboltasögu – allir með.
Karfan.is hefur með góðfúslegu leyfi höfundar og íþróttadeildar Morgunblaðsins fengið að endurbirta grein Tómasar sem sjá má hér að neðan:
Í kvöld verður ritaður nýr kafli í körfuboltasögu Íslendinga. Íslenska landsliðið fær nú loks að mæta öllum bestu þjóðum heims eftir breytingu á fyrirkomulagi í undankeppni Evrópumótsins.
Ekki er lengur spilað eftir því úrelta fyrirkomulagi þar sem lið keppa í A, B og C-deildum eins og á barnamótum heldur er styrkleikaraðað og dregið í riðla.
Það má svo sem skrifa annan pistil um það fyrirkomulag og hvernig það hindrar framgöngu körfuboltans að mörgu leyti þar sem ungir körfuboltaiðkendur fá aldrei að sjá bestu leikmenn álfunnar með berum augum.
En þess þarf ekki. Af öllum þjóðum var það litla Ísland sem lagði til breytinguna á þingi evrópska körfuknattleikssambandsins og keyrði hana í gegn með hjálp formannsins, Ólafs Rafnssonar.
Því fylgir líka ábyrgð að hafa komið að svona stórri breytingu. Nú loks fær íslenski körfuboltaheimurinn það sem hann vildi: Mörg af bestu liðum Evrópu í heimsókn á tveggja ára fresti.
Íslenskum körfuboltaunnendum hlýtur því að renna blóðið til skyldunnar og mæta á leiki íslenska liðsins. Draumurinn er orðinn að veruleika, nú er ekki tíminn til að sitja heima.
Og þá er ekki bara að tala um að mæta í kvöld. Ég hef engar áhyggjur að það verði ekki glæsileg mæting í Laugardalshöllina þegar Serbía, áttunda besta þjóðin í Evrópu með nokkra af bestu spilurum álfunnar, mætir í heimsókn. Eftir leikinn gegn Serbíu verða fjórir aðrir heimaleikir þar sem liðið þarf einnig stuðning. Þetta er ekki bara eins leiks hátíð.
En það eru ekki bara útlendu leikmennirnir sem við eigum að vera spennt fyrir. Aldrei áður hefur íslenskt körfuboltalandsliðið verið jafnríkt af atvinnumönnum. Átta af þeim tólf sem spila gegn Serbíu í kvöld eru atvinnumenn. Leikmenn sem búa yfir miklum hæfileikum en við sjáum allt of sjaldan.
Hversu spennt ætti fólk að vera fyrir því að sjá Hauk Helga Pálsson, Jón Arnór Stefánsson, Loga Gunnarsson, Jakob Sigurðarson og Hlyn Bæringsson alla í sama liðinu? Mjög!
Við skulum samt ekki blekkja okkur. Leikurinn í kvöld verður mjög erfiður sem og allir leikirnir í riðlinum. Ísland dróst í mjög erfiðan riðil sem inniheldur einnig frábær lið á borð við Svartfjallaland og Ísrael sem er með ríka körfuboltahefð.
En þetta er það sem við vildum – spila við þá bestu. Þetta ætti líka að kveikja enn frekari neista í körfuboltasamfélaginu. Auðvitað er draumurinn að gera þessa heimaleiki næstu árin að viðburði sem enginn vill missa af en allt byrjar þetta innan raða körfuboltans.



