Ísland er heilum 22 stigum yfir í hálfleik gegn feiknarsterku liði Svartfjallalands í Laugardalshöllinni, 61-39. Liðið er að spila stórkostlegan leik, bæði í vörn og sókn, sem virðist vera að fara verulega í taugarnar á gestunum. Svartfjallaland hefur fengið dæmdar á sig 3 tæknivillur og virðast láta góða spilamennsku Íslands slá sig alveg út af laginu. Jón Arnór hefur farið á kostum í leiknum með 23 stig í fyrri hálfleik og Hlynur Bæringsson ekki langt á eftir með 14 stig.
Bæði Haukur Helgi og Finnur Atli hafa fengið dæmdar á sig þrjár villur eins og þrír leikmenn gestana og því ljóst að það mun reyna á dýpt bekkjanna þegar líður á leikinn.
Svartfjallaland hefur fyrir leikinn ekki tapað leik í riðlinum og ljóst að þeir munu mæta snælduvitlausir í seinni hálfleik.
mynd: [email protected] – Úr leik Íslands og Eistlands fyrr í keppninni



