Þórsarar tóku á móti Snæfelli í gær, laugardag, í æfingaleik en bæði lið eru að undirbúa sig fyrir baráttununa sem hefst eftir viku. Liðin tóku frægan æfingaleik fyrir ári síðan sem varð að flauta af þegar rúmar 3. mínútur voru eftir þar sem sauð upp úr og annar dómari leiksins fékk högg í andlitið í látunum frá Brandon Cotton sem þá lék með Snæfelli. Leikurinn kláraðist að þessu sinni og unnu gestirnir úr Stykkishólmi sanngjarnan sigur, 76-82, eftir að hafa leitt allan leikinn.
Þórsarar voru nánast fullmannaðir fyrir utan Þorstein og Erlend á meðan tvo lykilmenn vantaði í lið gestanna, þá Pálma Frey Sigurgeirsson og Sigurð Þorvaldsson. Hólmarar byrjuðu leikinn með því að komast í 13-2 og voru í bílstjórasætinu allan leikinn. Mestur varð munurinn 13 stig en tveir þristar frá Halldóri Garðari og 4 stig frá frænda hans Emil Karel í byrjun fjórða leikhluta jöfnuðu leikinn, 71-71, en Kanarnir tveir og Jón Ólafur gerðu þá 10 stig í röð fyrir gestina og tryggði öruggan sigur.
Hjá Snæfelli voru atkvæðamestir landarnir Asim McQueen og Jay Threatt með 24 og 17 stig. Hjá Þór var Darrell Flake stigahæstur með 14 stig og 10 fráköst og næstur kom Emil Einarsson með 12.
Þór: Darrell Flake 14 (10 fráköst), Emil Einarsson 12 (3 stolnir, 2 stoðsendingar), Grétar Erlendsson 11 (8 fráköst, 2 stoðsendingar), Guðmundur Jónsson 11 (8 fráköst, 4 stoðsendingar, 3 stolnir), Halldór Garðar
Hermannsson 7, Darri Hilmarsson 7 (4 fráköst), Robert Diggs 7 (6 fráköst), Baldur Ragnarsson 5 (3 stoðsendingar), Vilhjálmur Björnsson 2, Benjamin Smith 0 (2 stoðsendingar).
Snæfell: Asim McQueen 24, Jay Threatt 17, Sveinn Arnar davíðsson 11, Stefán Torfason 10, Jón Ólafur Jónsson 8, Ólafur Torfason 7, Hafþór Gunnarsson 4, Magnús Hjálmarsson 1.



