Kominn er af stað nýr hópur sem hyggur á að stunda hjólastólakörfuknattleik og munu æfingar fara fram tvisvar sinnum í viku í húsi ÍFR að Hátúni í Reykjavík. Æfingarnar verða á miðvikudögum kl. 21:30 og á sunnudögum kl. 19:40.
Þetta er í fyrsta sinn sem skipulagðar æfingar í hjólastólakörfuknattleik fara fram síðan tímabilið 1993-1994 en þá stóð Ólafur Rafnsson fyrir átaki í íþróttinni. Ólafur er fyrrum formaður Körfuknattleikssambands Íslands og núverandi forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og FIBA Europe. Þegar æfingarar fóru fyrst fram byggðust þær á slagorðinu ,,Körfubolti er fyrir alla.“
Á æfingarnar eru allir velkomnir hvort sem þeir notist daglega við hjólastól eða ekki og hvort sem þeir glími við fötlun eður ei. Áhugasamir verða að koma með stól sjálfir en stefnt er að því að geta lánað nokkra stóla til æfinganna.
Nánari upplýsingar um æfingarnar veitir Hákon Atli Bjarkason í síma 892 0994 eða á [email protected] – fyrsta æfingin er í kvöld kl. 21:30!