spot_img
HomeFréttirHaukar unnu í sveiflukenndum leik

Haukar unnu í sveiflukenndum leik

Skallagrímsmenn heimsóttu Hauka í Schenker-höllina í kvöld þegar liðin áttust við í Lengjubikarnum. Bæði lið spiluðu án lykilmanna en í lið Skallanna vantaði, eins og fram kom í dag, þá Egil Egilsson, Sigurð Þórarinsson, Hörð Hreiðarsson, sem eru frá vegna meiðsla, og Haminn Quaintance var hvíldur. Páll Axel Vilbergsson og Orri Jónsson klæddu sig upp og voru báðir í byrjunarliði Skallanna en óvíst var hversu mikið þeir myndu vera með í kvöld. Hjá Haukum voru þeir Emil Barja og Guðmundur Kári Sævarsson fjarri góðu gamni en þó í herklæðum á bekknum.
 
Haukar byrjuðu með miklum látum og skoruðu 10 fyrstu stig leiksins áður en Páll Axel Vilbergsson kom Borgnesingum á blað. Haukar voru að spila fína vörn og hirða þá lausu bolta sem duttu fyrir þá, keyra hraðaupphlaupin vel og eftir þriggja mínútna leik var staðan orðin 17-4 fyrir heimamenn. Borgnesingar tóku leikhlé og stilltu saman sína strengi og freistuðu þess að brjóta upp takt Haukanna. Það má segja að það hafi heppnast hjá þeim en næstu fjórar mínúturnar gerðist lítið hjá báðum liðum. Skallagrímsmenn bitu aðeins frá sér en Haukar kláruðu þó leikhlutann með stæl og leiddu með 15 stigum eftir hann 29-14.
 
Það var mun beittara Skallagrímslið sem kom til leiks í öðrum leikhluta. Vörn þeirra var þéttari fyrir og sóknaraðgerðir þeirra að skila mun meiri árangri en í fyrsta leikhluta. Á sama tíma hættu Haukar að keyra í bakið á gestunum eins og þeir höfðu gert framan af leik og Skallagrímsmenn minnkuðu muninn í tvö stig, 33-31. Haukar skoruðu næstu sjö stig og juku muninn í níu stig en loka kaflinn fór 3-7 fyrir grænum og staðan því 43-38 í hálfleik, Haukum í vil.
 
Páll Axel Vilbergs. og Carlos Medlock voru baneitraðir í upphafi þriðja leikhluta og sölluðu niður hverri þriggja stiga körfunni af fætur annarri. Grænir komust yfir 46-48 en Haukarnir létu það ekki á sig fá og náðu forystunni á ný. Stemningin var öll með rauðum á þessum kafla og var Andri Freysson fremstur meðal jafningja með tvo rosalega þrista. Borgnesingar tóku leikhlé í stöðunni 58-50 sem hafði góð áhrif á þá því þeir náðu tökum á leiknum og komust yfir á ný 60-61 og enduðu leikhlutann með eins stigs forystu 62-63.
 
Borgnesingar réðu lögum og lofum í upphafi þess fjórða og Haukar voru gjörsamlega týndir. Sá körfubolti sem þeir höfðu verið að spila framan af leik var heillum horfinn og Borgnesingar nýttu sér það til hins ýtrasta. Grænir voru komnir með 10 stiga forystu, 64-74, og ljóst að Haukar þyrftu að gera eitthvað ef þeir ætluðu að halda áfram að taka þátt í leiknum. Haukar byrjuðu að pressa og komu sér aftur inn í leikinn með góðum körfum sem pressuvörnin skilaði þeim sem og þeir skiptu yfir í svæðisvörn.
 
Orri Jónsson fékk skurð undir auga þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og munaði um minna fyrir Skallagrímsmenn en honum var tjaslað saman og hann kom fljótlega aftur inn á.
 
Loka mínútur leiksins voru æsi spennandi en Haukur Óskarsson kom Haukum aftur yfir, 77-76, þegar tvær mínútur voru eftir og Aaryon Williams bætti tveimur stigum við í næstu sókn. Carlos Medlock setti risa þriggja stiga körfu þegar hálf mínúta var eftir og jafnaði leikinn, 79-79, en Helgi Björn Einarsson kom Haukum aftur yfir þegar 12 sek lifðu leiks og fékk víta skot að auki. Helgi klikkaði úr skotinu en Haukar fengu boltann eftir baráttuna um frákastið. Skallarnir voru fljótir að brjóta og Aaryon Williams nýtti bæði skotin sín. Skallagrímur hélt til sóknar og boltinn barst til Davíðs Guðmundssonar sem mundaði fallbyssuna þegar hálf sekúnda lifði leiks. Brotið var á honum fyrir utan þriggja stiga línuna og var knötturinn hársbreidd frá því að fara ofan í. Davíð fékk þrjú vítaskot sem hann nýtti öll en nægur var tíminn ekki til að gera eitthvað frekara og Haukar unnu að lokum með minnsta mun 83-82.
 
Aaryon Williams og Haukur Óskarsson voru stigahæstir Haukamanna með 25 stig og Williams var með 10 fráköst að auki.
 
Hjá gestunum var Carlos Medlock með 28 stig og 7 stoðsendingar og Páll Axel Vilbergsson var með 25 stig og 5 fráköst.
 
Emil Barja spilaði ekkert fyrir Hauka í kvöld sem og Guðmundur Kári Sævarsson en þeir tveir hafa byrjað alla leiki sem þeir hafa tekið þátt í. Haukar vonast til að þeir verði klárir fyrir næsta leik þeirra sem er gegn ÍA í deildinni næstkomandi föstudag.
 
 
Mynd/ Andri Freysson stýrði Haukaliðinu í sigri þeirra gegn Skallagrími
 
 
Fréttir
- Auglýsing -