Sverrir Þór Sverrisson mætir með Grindvíkinga í Toyota-höllina í dag þegar liðið leikur gegn Keflavík í undanúrslitum Poweradebikarkeppninnar. Leikurinn hefst kl. 15:00 og verður í beinni útsendingu hjá RÚV. Liðin mættust nýverið í Domino´s deildinni þar sem Keflvíkingar urðu fyrstir liða til að næla sér í sigur í Röstinni. Gera má ráð fyrir epískum Suðurnesjaslag í dag. Karfan.is náði stuttu tali af Sverri fyrir leikinn.
Grindavík mátti sætta sig við tap síðast þegar liðið lék gegn Keflavík. Verður það eldsneyti á bátana ykkar fyrir leikinn í dag?
Bikarkeppnin er allt önnur keppni og nú snýst þetta eingöngu um þennan staka leik. Nú er tækifæri fyrir mína menn að mæta grimmir til leiks og gefa allt sem þeir eiga í leikinn. Okkur langar mikið til þess að tryggja okkur í úrslitaleikinn og nú er tækifærið.
Staðan á hópnum, allir heilir og klárir og verður Sammy Zeglinski með?
Það eru allir heilir, Zeglinski hvíldi í nokkra daga eftir að hann meiddist gegn Snæfell en hann er byrjaður að æfa aftur.
Verða gulir fleiri á pöllunum en bláir í dag?
Ég er viss um að Grindvíkingar fjölmenni og ég er nokkuð viss um að það verði fullt hús.
Snæfell-Stjarnan, hvort liðið kemst upp úr þessum og inn í Höllina?
Ég held að leikurinn í Hólminum verði mjög jafn, bæði þessi lið töpuðu síðasta deildarleik þannig að þau koma vel tilbúin til leiks. Ef ég verð að giska á úrslit leiksins þá segi ég að Snæfell vinni með 3stigum.
Taktíkin fyrir leikinn, megum við fá smá nasaþef af henni frá þér?
Við verðum að spila frábæra vörn, þurfum að halda einhverjum af helstu skorurum Keflavíkur niðri því það hefur nánast allt byrjunarliðið þeirra verið að skora mikið í síðustu leikjum.




