spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Vil sjá mína menn á tánum í 40 mínútur

Ingi Þór: Vil sjá mína menn á tánum í 40 mínútur

Snæfell tekur á móti Stjörnunni í undanúrslitum Poweradebikars karla í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Stykkishólmi og von á rosalegum leik þessara tveggja toppliða. Karfan.is náði í skottið á Inga Þór sem segir að mikið muni mæða á lykilmönnum liðanna í kvöld.
 
Allir heilir og klárir í slaginn gegn Stjörnunni?
Allir stemmdir og spenntir fyrir topp slag í Hólminum, það verður tekið vel á því.
 
Bæði lið töpuðu í síðustu umferð í deild fyrir þennan bikarslag, verður það eitthvað eldfimt inni í þessum leik?
Bæði lið koma mjög einbeitt til leiks og það mun mæða mikið á lykilmönnum í þessum leik, síðustu leikir telja lítið þar sem þetta er bara eitt tækifæri fyrir liðin að komast í Höllina.
 
Liðin hafa einu sinni mæst áður í deild þetta tímabilið þar sem þið unnuð…eitthvað hægt að rýna í þann leik fyrir þennan undanúrslitaleik?
Síðan við unnum Stjörnuna í haust þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, þeir hafa styrkts í erlendum leikmanni og eru með gríðarlega þéttan leikmannahóp, við erum vel mannaðir líka og erum tilbúnir í hörku baráttu þar sem ég vill sjá mína menn á tánum í 40 mínútur.
 
Keflavík-Grindavík: Hvort liðið fer í Höllina?
Þetta verður einsog leikur okkar, mikil barátta og í raun held ég að þetta velti á því hvort að Magnús verði á eldi eður ei. Þetta verða áhugaverð undanúrslit.
 
Planið, segðu okkur nú smá frá því hvað Snæfell mætir með í þennan bardaga?
Við þurfum að finna varnarleikinn og fráköstin en þau fóru í ranga tösku um jólin og við höfum ekki náð að finna nema aðra töskuna, Rabbi er á fullu að leita og ég trúi því að hann verði búinn að opna allar töskur fyrir leikinn á sunnudag.  
 
Fréttir
- Auglýsing -