Haukar komust upp fyrir Hamar í gærkvöldi og sitja nú í öðru sæti 1. deildar eftir sigur á Hvergerðingum þegar liðin mættust í Schenker-höllinni í gærkvöld. Hafnfirðingar hafa byrjað vel eftir áramót og sigrað alla sína leiki eftir áramót á meðan Hamarsmenn hafa hikstað örlítið og ekki náð nema einum sigri úr síðustu þremur leikjum.
Haukar náðu rosalegri byrjun í leiknum og leiddu með 22 stigum eftir fyrsta leikhluta 30-8. Ekkert gekk upp hjá gestunum á þessum 10 mínútum og virkaði pressuvörnin sem að Haukar spiluðu vel.
Haukar náðu mest 24 stiga forskoti í öðrum leikhluta og var alveg ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir Hamar en þeir náðu þó að laga stöðuna örlítið fyrir leikhlé þegar Örn Sigurðarson setti niður þriggja stiga skot sitt á loka sekúndum leikhlutans. Halldór Jónsson var sjóðandi í leikhlutanum og setti niður þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma sem hélt Hvergerðingum inn í leiknum. Haukar leiddu þó með 17 stigum í leikhléi.
Dæmið snérist gjörsamlega við í seinni hálfleik. Haukar voru ekki nægilega beittir í sínum aðgerðum og varnarleikurinn var slakur. Hvergerðingar börðust vel og átti á löngum köflum auðvelt með að finna leiðina að körfunni og minnkuðu muninn enn frekar áður en þriðja leikhluta lauk.
Það var alveg ljóst að liðin voru meðvituð um það að innbyrðis viðureignin milli þessara liða gæti haft mikil áhrif á loka niðurröðun deildarinnar. Hamarsmenn héldu áfram að minnka muninn og náðu að minnka hann minnst niður í sex stig en það er einmitt munurinn sem Hamar vann með í fyrri leik liðanna. Það má því segja að lokamínútur leiksins hafi verið nokkuð spennandi hvað þetta varðar því bæði lið börðust um að eiga innbyrðis viðureignina.
Haukar skoruðu góða körfu í stöðunni 98-92 og leiddu 100-92. Næsta sókn Hamars gekk ekki upp og Haukar náðu boltanum. Terrence Watson fékk boltann í hendurnar, brotið var á honum og hann fékk tvö skot á vítalínunni. Watson setti niður annað skotið og Haukar leiddu með níu stigum.
Hamar fór í sókn og sem fyrr var varnarleikur Hauka ekki merkilegur. Þorsteinn Ragnarsson komst í galopið sniðskot sem hann setti niður og dæmd var villa á Haukamanninn Þorstein Finnbogason. Þorsteinn, Hamarsmaður, setti niður vítaskotið sitt og 5 sekúndur lifðu leiks. Haukar freistuðu þess að ná skoti í lokin og áttu innkast á sóknarhelming sínum. Boltinn barst til Steinars Aronssonar sem dripplaði í fót Ragnars Nathanaelssonar og rúllaði alla leið yfir á varnar helming heimamanna. Þorsteinn Finnbogason reyndi eftir fremsta megni að halda boltanum lifandi en endaði útaf.
Ekki var nægilega mikill tími fyrir Hamar til að gera neitt úr innkastinu og fjaraði leikurinn út þegar Terrence Watson greip boltann. Haukar sigruðu leikinn því með sex stigum, 101-95, og eru liðin því jöfn þegar kemur að innbyrðis viðureigninni.
Haukur Óskarsson var sjóðandi fyrir Hauka og setti niður 28 stig og tók 9 fráköst, Terrence Watson var honum næstur með 25 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar og Emil Barja bætti við 18 stigum, 9 fráköstum og 10 stoðsendingum.
Hjá Hamri var Jerry Hollis með 29 stig og 12 fráköst, Þorstinn Ragnarsson gerði 24 stig og Halldór Jónsson var með 16 stig. Oddur Ólafsson náði fínni tvennu þegar hann gerði 10 stig og gaf 11 stoðsendingar.



