spot_img
HomeFréttirYfirburðasigur Njarðvíkur í Hertz-Hellinum

Yfirburðasigur Njarðvíkur í Hertz-Hellinum

Í Seljaskóla, einnig þekktur sem Hertz-Hellirinn, mættust botnlið ÍR og Njarðvík, sem situr í því sjöunda.
 
Njarðvík byrjaði leikinn betur, en heimamenn voru kaldir strax frá upphafsmínútu og kom þeirra fyrsta karfa ekki fyrr en eftir 3 mínútur og 20 sekúndur. Einkenndist leikur ÍR-inga af töpuðum boltum og múrsteinum héðan og þaðan af vellinum. Ekki var það eina vandamál heimamanna, heldur byrjuðu lykilmenn að safna villum snemma leiks og sem dæmi nældi Eric Palm sér í tvær slíkar á aðeins 30 sekúndna kafla í fyrsta leikhluta.
 
Marcus Van kom sterkur til leiks og má segja að hann hafi étið hvert frákastið á fætur öðru í leiknum. Teigurinn var hans, algerlega. Hann varði þar að auki skot frá Nemanja Sovic meistaralega. Að sama skapi var vörn ÍR óþarflega götótt og frákastageta liðsins var með eindæmum slök. Það var nánast að gestirnir fengu fráköstin á silfurfati allan leikinn. Heimamenn voru komnir í holu en Sovic klóraði í bakkann er flautan gall í lok fyrsta leikhluta og virtist sem svo að heimamenn ætluðu aðeins að sýna klærnar.
 
ÍR beitti pressuvörn í upphafi annars fjórðungs og fengu Njarðvík dæmdar á sig 8 sekúndur, en aftur voru það fráköstin sem reyndust heimamönnum dýrkeypt. Vilhjálmur Theodór Jónsson kom öflugur inn af bekknum fyrir ÍR og kom smá lífi í þá hvítklæddu, en í heildina litið var liðið ekki að skila sínu, enda fengu Njarðvíkingar auðveldar sóknir og auðveld stig, trekk í trekk. Það þótti til tíðinda að Eric Palm skoraði ekki sín fyrstu stig fyrr en eftir tæpan einn og hálfan fjórðung, en varnarleikur gestanna var töluvert betri en bæði sóknarleikur og varnarleikur heimamanna. Elvar Már Friðriksson og Nigel Moore fóru fyrir liði Njarðvíkinga, þeir ætluðu sér að vinna leikinn, það var ljóst.
 
Smám saman virtust yfirburðir ferskra Njarðvíkinga vera að koma í ljós og forskotið jókst. Heimamenn aftur á móti skorti sjálfstraust, þolinmæði og baráttuandann. Sú barátta var til staðar í herbúðum þeirra grænklæddu og virtust þeir hafa nælt sér í einkaréttinn á fráköstum, þau héldu áfram að falla þeim í hendur og fór Van þar á kostum. Heimamenn héldu áfram að byggja múrsteinahús, Njarðvík skellir fleiri þristum og fram að þessu höfðu flautumennirnir verið hrifnari af því að blása á heimamennina. Það var líkt og Domino‘s væru að framreiða sneið fyrir hverja villu, því stuðningsmenn gestanna vildu fá fleiri, svo gómsætar voru þær.
 
D‘Andre Jordan setti í annan gír og reyndi að koma ÍR inn í leikinn aftur, en fær dæmda á sig þriðju villuna fyrir leikhlé. Njarðvík koma sér í þægilega stöðu er munurinn jókst í 20 stig en heimamenn ná þó aðeins að laga stöðuna fyrir leikhlé, 39-52. Heimamenn áttu þó talsvert í land með að ná að brúa bilið milli liðanna, en það virtist þó ekki ógerlegt.  
 
Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Grænklæddu setja niður þrist til að opna þriðja leikhluta og ÍR gleymdu að þvo sér um hendurnar eftir pizzuátið í búningsklefanum og boltinn því ansi sleipur. Forskotið aftur orðið 19 stig og vindurinn í bakið á Njarðvíkingum. Sókn heimamanna var svo gott sem stöðnuð og varnarleikurinn ekki að gera sig. Gestirnir voru duglegir að setja niður körfur um leið og flautaðar voru villur á ÍR. D‘Andre Jordan átti þó skemmtilega leikfléttu þar sem hann lætur stela boltanum af sér, stelur honum strax aftur og á skemmtilega stoðsendingu á Hjalta Friðriksson.  
 
Þegar hér var komið til sögu var greinilegt að Elvar hafði tekið leikinn í sínar hendur. Hann leiddi Njarðvík áfram með stigaskorun sem og leikstjórn. Það sem eftir lifði leiks einkenndist af bardaga milli hans og D‘Andre. Báðir skoruðu mikið og fundu samherja um allan völl. Heimamenn náðu að klóra í bakkann en Elvar upp á sitt einsdæmi gerði það svo gott sem ómögulegt. Átti hann stórkostlega stoðsendingu á Van sem skilaði sér í öflugri troðslu og skömmu síðar átti hann svipaða sendingu sem endaði í auðveldu sniðskoti. Yfirburðir Njarðvíkur voru algerir og ÍR bara hreinlega áttu ekki svör við leik Njarðvíkinga og má rekja það beint til getuleysi í fráköstum sem og varnargleymsku.
 
D‘Andre átti þó smá eftir í tanknum og með fjórar villur á bakinu spilaði hann skynsaman en hraðan leik. Hann skoraði um allan völl og leitaði að samherjum sínum, hann ætlaði að koma ÍR til baka, en það var hreinlega of seint í rassinn gripið. Talsverðar tafir voru á leiknum eftir leikhlé og fengu gestirnir gefins stig út frá þeirri töf og stuðningslið ÍR-inga var alveg viss um að flauturnar virkuðu ekki á vallarhelmingi heimamanna. Pirringur var á pöllunum til skiptis allan leikinn. Litla vonarglætan sem ÍR hafði um að komast inn í leikinn varð að engu þegar Van kemur Njarðvík 15 stigum yfir og Moore stelur svo boltanum og leggur hann auðveldlega í körfuna. Kirsuberið ofan á rjómann fyrir gestina var svo ódýr en um leið söltug sýndarmennskutroðsla frá Marcus Van, eftir að leikmenn beggja liða biðu eftir að tíminn rann út.
 
Elvar var atkvæðamestur fyrir Njarðvík með 23 stig og 6 stoðsendingar og var aðalvítamínsprauta liðsins. Nigel Moore var ekki langt undan, með 21 stig og 8 fráköst, ásamt 4 stoðsendingum. Frákastakóngur leiksins var svo Marcus Van, með 18 slík ásamt 20 stigum, en segja má að hann hafi í raun verið maður leiksins fyrir gestina.
 
Hjá heimamönnum var D‘Andre Jordan með 27 stig, 9 stoðsendingar, 4 fráköst og 5 af 7 þristum niður. Eric Palm var næstur með 18 stig og 5 fráköst. Sveinbjörn Claessen var svo með 10 stig.
 
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson
Fréttir
- Auglýsing -