spot_img
HomeFréttirSex stiga sókn kveikjan að Keflavíkursigri

Sex stiga sókn kveikjan að Keflavíkursigri

Keflvíkingar unnu í kvöld rándýran sigur á KR í DHL Höllinni þegar liðin áttust við í 14. umferð Domino´s deildar karla. Lokatölur 85-100 Keflavík í vil en í rúmar 36 mínútur var leikurinn mun meira spennandi en lokatölurnar gefa til kynna. Sex stiga sókn Keflavíkur þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks mörkuðu kaflaskil í leiknum, Magnús Þór Gunnarsson hitti þá úr sínum fyrsta þrist í níu tilraunum, brotið var á Magnúsi, tæknivíti einnig flautað á KR svo Magnús Þór skoraði sex Keflavíkurstig í einni og sömu sókninni. Gestirnir úr Reykjanesbæ litu ekki við eftir þetta og kláruðu leikinn af öryggi.
 
Baptist, Craion og Lewis gerðu 78 af 100 stigum Keflavíkur í leiknum en þegar kom að því að brjóta ísinn í jöfnum leik steig Magnús Þór upp, KR hafði haft góðar gætur á honum fram að þessu en Magnús hafði hátt hins þolinmóða rándýrs á oddinum í kvöld og eftir að bráðin hafði nartað og nartað var reitt til höggs og ljósin slökkt hjá KR.
 
Leikurinn vigtaði þungt, KR hafði unnið fyrri slag liðanna í deildinni með tveimur stigum og liðin einnig jöfn að stigum í deild fyrir leikinn í kvöld. Keflavík komst því tveimur stigum upp fyrir KR og náði innbyrðisviðureigninni á sitt band.
 
Brandon Richardson var klár frá fyrsta kalli í liði KR og opnaði leikinn með því að stela boltanum í tvígang, setti svolítið tóninn fyrir KR í upphafi leiks og röndóttir héldu á 13-2 skrið þar sem Darshawn McClellan snögghitnaði fyrir utan þriggja stiga línuna. Gestirnir úr Reykjanesbæ tóku leikhlé og svöruðu að því loknu með 6-0 dembu. McClellan var þó áfram í fluggírnum og kom KR í 22-13 með þrist.
 
Félagarnir Martin Hermannsson og Kristófer Acox komu svo inn í liði KR þegar skammt lifði af fyrsta leikhluta og þeir biðu ekki boðanna heldur gaf Martin sykurhúðaða alley-up sendingu á Kristófer sem tróð með látum, ef það var ekki nóg þá stal KR strax aftur boltanum og Martin þar að verki og skoraði og fjögur stig í röð komin í sarpinn á innan við tíu sekúndum. Staðan 28-17 fyrir KR eftir fyrsta leikhluta og heimamenn fóru því með ansi myndarlega stemmningu inn í annan leikhluta.
 
Mistökin komu í kippum í öðrum leikhluta hjá báðum liðum, bæði reyndu á köflum að keyra upp hraðann með dræmum afleiðingum. Billy Baptist fann sig þó í hamaganginum og hélt Keflavík í námunda við KR með dyggum stuðningi frá Darrel Lewis en sá lipri launmorðingi gerði 30 stig í kvöld, tók 8 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Ef það var ekki nóg þá, sem fyrr, lék maðurinn nánast óaðfinnanlega vörn og kom Brandon Richardson oftsinnis í vandræði.
 
Brynjar Þór Björnsson komst loks á blað í liði KR eftir 18 mínútna leik þegar hann setti niður þrist og kom röndóttum í 41-38. KR-ingar leiddu svo 45-43 í leikhléi þar sem McClellan var kominn með 15 stig í liði KR en hann lauk leik í kvöld með 5 af 5 í þristum! Hjá Keflavík var Billy Baptist með 14 stig í leikhléi og Darrel Lewis 13. Craion var nokkuð rólegur í fyrri hálfleik en átti eftir að láta vel til sín taka í þeim síðari.
 
Jafnt var á öllum tölum í upphafi þriðja leikhluta, Keflvíkingar sigu þó framúr og komust í 53-62 þar sem Craion lék KR teiginn grátt og vörn heimamanna ekki upp á marga fiska þennan leikhlutann. KR herti þó róðurinn og breytti stöðunni úr 53-62 í 71-70 með 18-8 spretti í lok þriðja leikhluta.
 
Martin Hermannsson og Kristófer Acox opnuðu fjórða leikhluta með myndarbrag, skemmtilegt samspil hjá þeim félögum sem lauk með troðslu frá Acox og gott ef hann dustaði ekki rykið af skotklukkunni í leiðinni. Craion jafnaði svo metin í 73-73 þegar hann fíflaði KR-inginn McClellan svo illa að lá við að menn hefðu látið Gunnar Þorvarðarson og Kevin McHale vita símleiðis hvað hefði átt sér stað í DHL.
 
Snorri Hrafnkelsson kom með flotta baráttu inn í fjórða leikhluta hjá Keflavík og skilaði sínu vel. Áður en við komum að vendipunkti leiksins verðum við þó að óska Magnúsi Þór Gunnarssyni til hamingju með myndarlegasta ,,flopp” vetrarins. Áherslur dómaranefndar fyrir tímabilið voru þær að dæma tæknivíti á slíkt en því var ekki viðkomið að þessu sinni. Verst að tilnefningum til Edduverðlaunanna er lokið.
 
Þegar 3.36 mínútur lifðu leiks setti Magnús Þór Gunnarsson niður sína fyrstu þriggja stiga körfu í leiknum. Brotið var á honum að auki og KR tók leikhlé, á leið í leikhléð fengu heimamenn einnig dæmt á sig tæknivíti og því kom Magnús Þór út úr leikhléi Keflavíkur og setti niður þrjú víti og þar með sex stiga sókn! Blóð…hákarl…þarf ekki að spyrja að leikslokum.
 
Keflavík gerði 30 stig í fjórða leikhluta gegn KR í kvöld! Alls 56 stig í síðari hálfleik og þó lokatölurnar hafi verið 85-100 var leikurinn meira spennandi en svo að 15 stiga sigur Keflvíkinga gefi rétta mynd af leiknum. Blaðra KR sprakk og Keflvíkingar létu kné fylgja kviði og sitja nú í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en KR í 6. sæti með 16 stig.
 
Menn voru að kynda fyrir leik kvöldsins…KR-ingar buðu upp á rándýrt myndband þar sem Lay´s kom við sögu. Við s.s. ætlum ekki að útskýra þá forsögu, hana þekkja flestir en það er í besta falli athyglisvert að leika sér við nautið Magnús, alltaf hætta á því að þú fáir hornin í þig. Sú varð raunin í kvöld.
 
 
Mynd/ Heiða – Michael Craion lék KR oft grátt í kvöld og erfitt að varna því að þessi skrokkur komist leiðar sinnar.
 
Fréttir
- Auglýsing -