KR gerði góða ferð í Ljónagryfjuna í kvöld og lögðu þar meistara Njarðvíkur 68-84. Shannon McCallum átti enn einn stórleikinn í liði KR með 44 stig, 8 fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta.
Lele Hardy átti ekki síðri dag í Njarðvíkurliðinu en hún gerði 33 stig, tók 18 fráköst og stal 4 boltum. KR er nú í 4. sæti deildarinnar með 22 stig en Njarðvíkingar með 10 stig í 6. sæti deildarinnar.
Í Kórnum áttust svo Augnablik og Breiðablik við í 1. deild karla þar sem Blikar fóru með 88-96 sigur af hólmi. Sigmar Logi Björnsson var stigahæstur í liði Augnabliks með 23 stig og 6 stoðsendingar og Atli Örn Gunnarsson gerði 25 stig og tók 6 fráköst í liði Blika og tvennutröllið Þorsteinn Gunnlaugsson bætti við 17 stigum og 15 fráköstum.
Blikar eru nú í 6. sæti 1. deildar með 12 stig en Augnablik er í 8. sæti með 4 stig og eru þrjú lið jöfn á botni deildarinnar með 4 stig en hin tvö eru Reynir Sandgerði og ÍA.



